151. löggjafarþing — 20. fundur,  13. nóv. 2020.

skipulagslög.

275. mál
[13:14]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir umræðuna og vil aðeins koma inn á það sem hv. þm. Andrés Ingi Jónsson nefndi. Ég tek undir með hv. þingmanni að aðkoma almennings þarf að vera tryggð í öllu þessu ferli, hvort sem við erum að tala um skipulagsmál, mat á umhverfisáhrifum eða aðrar ákvarðanir sem koma nærsamfélagi okkar, nærumhverfi eða náttúru við. Ekki er gengið á svig við það með þessu frumvarpi, alls ekki. Auðvitað væri best ef þessi mál gætu gengið smurðar fyrir sig en þau hafa gert, ég tek líka undir það með hv. þingmanni. Það hefur þó ekki verið. Það er kannski of langt mál að fara út í það hvaða ástæður eru fyrir því, en þær eru fjölmargar. Vonandi er þetta umhverfi að batna, það samstarf sem er á milli framkvæmdaraðila, skipulagsyfirvalda, landeigenda og almennings. Með þessu fyrirkomulagi sem við erum að setja hér upp með því að veita þeim sveitarfélögum, sem umræddar framkvæmdir fara í gegnum, áfram aðkomu að því að setja skipulagsáætlanir, og ríkið stígi þarna inn í með aðkomu Skipulagsstofnunar, fáum við alveg klárlega inn faglegu þættina af hendi ríkisins. Ég held að það verði mjög góð breyting þegar að þessu kemur.

Við þurfum líka að hafa í huga að þetta eru sérstakar framkvæmdir. Þetta eru framkvæmdir sem lúta að því að reyna að tryggja raforkuöryggi og því njóta þær sérstöðu. Ég tel að þetta eigi ekki að hafa víðtækara gildi en hér er lagt til og tek þar með undir með hv. þm. Andrési Inga Jónssyni, enda gengur þetta frumvarp ekki lengra en sem viðkemur raforkuflutningnum, eins og fram kemur í frumvarpinu.