152. löggjafarþing — 20. fundur,  17. jan. 2022.

umhverfisáhrif kísilvers í Helguvík.

[15:39]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Guðbrandi Einarssyni þessa fyrirspurn. Nú ætla ég bara að segja að ég hef ekki kynnt mér nákvæmlega úrskurð Skipulagsstofnunar um þetta, en ber auðvitað fullt traust til þeirrar stofnunar að hún vinni þetta út frá bestu faglegu gögnum og rökum sem til eru.

Hvað varðar hins vegar þessa viljayfirlýsingu, ef ég þekki það rétt þá er hún á milli PCC á Bakka og Arion banka, ekki satt? Þannig að það er í sjálfu sér erfitt að stíga þar inn því að sveitarfélagið fer væntanlega þarna með skipulagsvaldið og væntanlega hefur sveitarfélagið mikið um það að segja hver nákvæmlega framtíðin verður hvað varðar þessa verksmiðju. Þannig að ég ætla ekki að stíga inn í þetta mál í smáatriðum, sem hv. þingmaður þekkir auðvitað miklu betur en ég frá fyrri störfum sínum í bæjarstjórn í Reykjanesbæ. Ég vil bara segja að almennt, hvort sem er um þessa fjárfestingu að ræða eða aðrar, þá erum við að sjálfsögðu, og það er það sem ríkisstjórnin hefur verið að gera, t.d. með því að innleiða sérstakar ívilnanir fyrir fjárfestingar sem leiða til samdráttar í losun, ekki aukningar í losun, að reyna að stuðla að iðnaði þar sem við leitum grænna lausna, grænna leiða; draga úr losun og binda meira kolefni. Það er hin almenna stefna. Hvað varðar þetta tiltekna mál hins vegar þá treysti ég mér ekki til að leggja mat á þann úrskurð sem hv. þingmaður nefnir hér sérstaklega.