152. löggjafarþing — 20. fundur,  17. jan. 2022.

um fundarstjórn.

[15:51]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Forseti. Við erum hér í upphafi vorþings þegar miklar sóttvarnatakmarkanir hafa verið lagðar á þjóðina og ekki síður á þá rekstraraðila sem reka ferðaþjónustufyrirtæki, veitingahús, menningarstarfsemi o.fl. Hér í dag er verið að flytja mál hæstv. fjármálaráðherra um að fresta gjalddögum. Við erum hér í risastórum málum er varða efnahag hluta þjóðarinnar sem býr við mikla óvissu á þessum tímum. En hæstv. fjármálaráðherra sést hvergi, hvorki á tröppum Ráðherrabústaðarins né í þinginu á fyrsta degi eftir jólahlé. Mig langar að spyrja hæstv. forseta hvað valdi fjarveru hæstv. fjármálaráðherra nú á þessum óvissutímum. Er hæstv. fjármálaráðherra í rauninni óþarfur þegar kemur að rekstri ríkissjóðs og efnahagslegum afleiðingum kórónuveirunnar? Telur hann sig ekki þurfa að vera hér?