Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 20. fundur,  19. okt. 2022.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

326. mál
[16:49]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir svarið sem var að mörgu leyti mjög gott, sérstaklega undir lokin. Það er annað sem ég vek athygli á og mér finnst svolítið sérstakt, þ.e. ef lífeyrissjóðirnir fara fram yfir markið. Það stendur hérna á bls. 6, með leyfi forseta:

„Sjóðirnir sem hafa hæsta hlutdeild erlendra eigna telja sig ekki geta farið nær efri mörkum um fjárfestingar í erlendum gjaldmiðlum þótt þeir myndu vilja það.“

En svo er sagt að til að draga úr áhættunni er lagt til að lífeyrissjóðirnir þurfi ekki að vera undir hámarkinu á hverjum tíma, heldur verði það að koma fram í kaupum og sölum að þeir séu innan leyfilegra marka. Gefum okkur tilvik. Núna eru miklar eignahækkanir erlendis, kannski á gulli eða þessum erlendu eignum. Er það ekki bara hið besta mál? Kannski eru áfram fyrirsjáanlegar hækkanir. Er ekki bara hið besta mál að þær séu að hækka? Það er raunverulega verið að takmarka lífeyrissjóðina í því að fjárfesta og halda eignum erlendis, það er verið að takmarka kaup og sölu ef það er mikil eignahækkun erlendis. Varðandi þessa gjaldeyrisáhættu þá finnst mér sjónarhornið svolítið þröngt. Ég er alveg sammála því sem segir um afleiðuviðskiptin og það allt. En mér finnst að lífeyrissjóðirnir eigi að fá að ávaxta pund sitt erlendis, það eigi alltaf að vera þannig. (Forseti hringir.) Ef það er uppsveifla þá eigi lífeyrissjóðir að fá að sigla með þeirri uppsveiflu. En það þarf hins vegar að tryggja að það valdi ekki niðurfalli.