Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 20. fundur,  19. okt. 2022.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

326. mál
[17:04]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég tel það bara sjálfsagt vegna þess hvernig kerfi erum við með í dag? Hvernig virkar kerfið í dag? Hverjir eru ánægðir með kerfið í dag? Ég hugsa að þeir einu sem eru ánægðir með lífeyrissjóðskerfið í dag séu þeir sem eru ekki inni í almannatryggingakerfinu, sleppa við það og þurfa ekki einu sinni að koma nálægt því. Þeir sem eru verst settir eru hundóánægðir með kerfið í dag. Hvers vegna? Jú, vegna þess að eins og hv. þingmaður var að segja þá er nú þegar verið að skerða lífeyrissjóðsgreiðslur illilega. Lífeyrislaun framtíðarinnar, sagði hann. En hvað er gert við lífeyrislaun nútíðarinnar? Jú, þau eru skattlögð um 37% og skert um 45%. Hver ætlar að segja mér það að eftir 20, 30, 40 ár, að þau verði þá ekki skattlögð um 60% og skert um 70%? Það verður verk þeirrar ríkisstjórnar þegar þar að kemur.

Það sem ég er að biðja um er að við séum að nýta peningana fyrir fólkið í landinu í dag. Ég er t.d. að tala um að nota fjárhæðina til að skatta ekki fátækt og sárafátækt fólk. Við getum t.d. séð til þess að 400.000 kr. séu skatta- og skerðingarlausar. Er það ofrausn? Við vitum að ríkisstjórn eftir ríkisstjórn sem hefur verið við völd dettur ekki í hug í eina mínútu að sjá til þess að fólk á lægstu bótum, sem er í fátækt, verði skattlaust. Það er verið að skattleggja fátækt. Það er enginn sem stefnir að því að hafa það ekki þannig.