Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 20. fundur,  19. okt. 2022.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

326. mál
[17:06]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður spyr mig nokkurra spurninga. Hvort það sé ofrausn að fólk hafi í sig og á. Nei, ég er sammála hv. þingmanni um að þetta kerfi er ekki gott. Ég ætla að styðja hann í því að vinna að bótum á þessu kerfi. Ég er ósammála öllum þeim skerðingum sem viðgangast í þessu kerfi en hef áhyggjur af því ef það á að nýta lífeyrisgreiðslur framtíðarinnar til að þjóna hagsmunum okkar sem nú erum við að glíma við þetta kerfi sem er svo sannarlega ranglátt.

Ég vil bara nefna hér að þjóðin er að eldast. Þeim fjölgar sem eru að verða gamlir og þeim fækkar sem eru á vinnumarkaði og það eru enn þá meiri líkur á að það muni gerast í framtíðinni að ríkið muni ekki gera það sem það þó er að gera í dag, að borga einhverjar grunnbætur. Það gæti alveg orðið niðurstaðan í framtíðinni að ríkið myndi hreinlega leggja af einhverjar grunnbætur og segja bara að lífeyriskerfið eigi að sjá um þetta. Maður hefur svo sem heyrt það á mörgum hér sem eru að ræða þetta að menn vilji helst losna við þessi tilfærslukerfi og grunnbætur og færa þetta yfir til lífeyrissjóðanna. Ég myndi hafa áhyggjur af því að ef það á að fara að taka fjármuni út úr lífeyriskerfinu, sem eru til ávöxtunar í marga áratugi, og skerða þannig rétt fólks í lífeyrissjóðum, að þessi hópur verður til framtíðar miklu verr staddur heldur en annars væri. Ég myndi aldrei undir nokkrum kringumstæðum styðja það að taka skattinn af lífeyrisgreiðslum fyrir fram.