Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 20. fundur,  19. okt. 2022.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

326. mál
[17:42]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég styð hv. þingmann í að berjast gegn miklum skerðingum í þessu kerfi. Mér þykja þær vera ótækar. Ég hef lýst því yfir innan Viðreisnar að ég standi fyrir og vilji berjast fyrir því að skerðingar í tilfærslukerfum verði a.m.k. minnkaðar. Þær eru að mínu mati fáránlegar. Ég er bara þeirrar skoðunar að ég tel ekki rétt að við fjármögnum greiðslur til ellilífeyrisþega eða öryrkja dagsins í dag með greiðslum sem eiga vera til staðar fyrir ellilífeyrisþega og öryrkja framtíðarinnar. Eins og ég benti á hér áðan er eldra fólki að fjölga og þeim sem standa undir greiðslum inn í tilfærslukerfin, þeim sem greiða skatta í framtíðinni, mun fækka. Ef við ætlum að taka af og nýta skattana fyrir fram sem eiga að greiðast kannski eftir 40 ár, þá verður ríkissjóður í enn verri stöðu til að mæta þeim kröfum að standa við tilfærslukerfin sem þá verða til staðar. Ég er ekki til í að styðja slíkar tillögur en ég styð hv. þingmann svo sannarlega í þeirri baráttu sinni sem hann hefur háð alveg frá því ég kynntist honum. Það eru nokkrir áratugir síðan. Þegar ég kynntist honum innan verkalýðshreyfingarinnar þá hélt hann þessar sömu ræður. Hann er staðfastur í þeirri vegferð sinni að bæta þetta og ég styð hann í því.