Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 20. fundur,  19. okt. 2022.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

326. mál
[17:51]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég tel að hér sé um margt mjög gott frumvarp sem eykur heimildir lífeyrissjóða til að fjárfesta erlendis. Ég er með nokkrar athugasemdir sem mig langar að reifa hér. Hér er verið að auka heimildir eða við getum sagt frekar að lágmark eigna lífeyrissjóða í innlendum gjaldmiðli sé lækkað úr 50% í 35% í nokkrum skrefum. Þetta er mikilvægt skref. Ég tel að þetta sé mjög mikilvægt skref, að það sé verið að auka heimildir. Það er vissulega tekið hinum megin frá, sem sagt að eign lífeyrissjóða að lágmarki í innlendum gjaldmiðli sé lækkuð úr 50% í 35%. Það þýðir að verið sé að hækka erlenda eign þeirra, eignir í erlendum gjaldmiðli, úr 50% í 65%, þ.e. um 15%. Ég veit að það er búið að rannsaka þetta og fræðimenn búnir að fjalla um þetta hérna og það á að fara að gera þetta í skrefum.

Ég hef litið svo á, og ég tel þetta mikilvægt atriði, að það felist áhætta í því hve mikið lífeyrissjóðir eru að fjárfesta innan lands. Mér finnst vanta inn í þetta frumvarp, sem er að mörgu leyti mjög gott, að það sé fjallað nægilega þar um áhættu íslenskra lífeyrissjóða af því að vera hérna í þessu pínulitla hagkerfi með þessar gríðarlegu fúlgur fjár til fjárfestinga einungis á Íslandi, sem er 50% af eignum þeirra. Sú hætta er ekki nægilega vel reifuð í frumvarpinu. Mér finnst að það ætti að nálgast þetta mál meira þannig, þ.e. mikilvægi þess að lífeyrissjóðir fari út fyrir landsteinana og ávaxti pund sitt til að dreifa áhættunni. Þetta er grundvallaratriði. Ísland er lítið hagkerfi og með lítinn gjaldmiðil, einn minnsta gjaldmiðil í heimi, og við í okkar litla hagkerfi getum ekki haft svona risastóra aðila til að fjárfesta í hagkerfinu. Við þurfum að hafa dreifða samsetningu fjárfesta og við sjáum líka að það eru kvótaeigendur og lífeyrissjóðirnir sem eru stærstu fjárfestarnir og þeir fyrrnefndu eru jafnvel að kaupa í hinum ýmsum greinum og ryðja öðrum aðilum út. Það er mjög mikilvægt að við höfum fjölbreytta samsetningu af fjárfestum og að ekki sé verið að keyra upp eignaverð að óþörfu vegna þess að lífeyrissjóðirnir hafa ekki möguleika á að fjárfesta erlendis. Þetta er grundvallaratriði.

Varðandi gjaldmiðilinn þá tel ég mjög mikilvægt að við höldum okkar gjaldmiðli, bara út af sveiflujöfnun og sjálfstæði þjóðarinnar og sjálfstæði hagkerfisins, að við séum með sjálfstæðan gjaldmiðil. Hann hefur vissulega verið óstöðugur en við erum vonandi að komast út úr því. Við vorum á opnum fundi með seðlabankastjóra í gær í efnahags- og viðskiptanefnd, sem ég sat í fjarveru aðalmanns míns flokks. Þá greinilega vísaði hann til sögunnar, verðbólgusögunnar, Seðlabanki Íslands í dag ætlar að koma í veg fyrir að við munum lifa verðbólgutíma eins og þá sem við lifðum á níunda áratug síðustu aldar, svo dæmi sé nefnt.

Hann tók líka dæmi, minntist á það varðandi verðbólgu, svo að ég komi inn á það líka, að í dag er verðbólgan í Eystrasaltsríkjunum 20%. Hún er miklu lægri hér. Eystrasaltsríkin búa við evruna, það er 20% verðbólga þar. Ef þau ætla að skera niður geta þau ekki farið í gengisfellingu, þau þurfa að fara í innri gengisfellingu, þ.e. lækka laun og kostnað innan lands, alveg sama og þau gerðu eftir hrun. Það var mjög sársaukafullt eftir hrun, það voru þúsundir manna, tugþúsundir manna, sem fluttu frá þessum ríkjum af því að þau þurftu að lækka laun ríkisstarfsmanna og lækka útgjöld ríkissjóðs til að geta haldið í við evruna. Þau gátu ekki fellt gengið þannig að þau gerðu samfélagið fátækara með einu pennastriki, eins og gengisfelling er raunverulega.

Ég er búinn að fjalla um áhættuna af því að hafa svona mikið af eignum lífeyrissjóðs erlendis og ég vil benda á hvað þetta varðar að þegar við erum að tala um að leyfa þeim að fara að fjárfesta, auka um 15% í nokkrum skrefum, þá er t.d. norski olíusjóðurinn — ég veit að það er gjörólíkur sjóður hvað varðar tekjur, sjóðurinn kemur af olíuauðlind Norðmanna en auðlind okkar er líka — við geymum mikinn auð í lífeyrissjóðunum. Hvað heitir norski olíusjóðurinn á norsku? Jú, hann heitir Statens pensjonsfond. Hvað heitir hann á ensku? Hann heitir, með leyfi forseta: Government pension fund global. Þeir nota norska olíusjóðinn, hann má einungis fjárfesta erlendis, hann má ekki fjárfesta í Noregi svo að hann ryðji ekki öðrum atvinnugreinum út, af því að ef norski sjóðurinn færi að fjárfesta innan lands myndi gengi norsku krónunnar rjúka upp úr öllu valdi og norskur iðnaður væri ekki samkeppnisfær og allar fjárfestingar myndu hækka upp úr öllu valdi.

Ef ég tek þennan samanburð varðandi Ísland, að lífeyrissjóðir séu að fara að fjárfesta erlendis, þá tel ég mjög mikilvægt að það mætti jafnvel vera hærra hlutfall sem þeir fjárfesti erlendis. Í frumvarpinu er mjög mikið fjallað um gjaldeyrisáhættuna. Jú, það er gjaldeyrisáhætta af því að vera með tekjur í erlendum gjaldmiðli af hinum erlendu fjárfestingum en útgjöld einungis í íslenskum krónum. Það skilja allir. Útgjöld lífeyrissjóðanna, lífeyrisréttindi, eru greidd út í íslenskum krónum. En ef við skoðum síðan varðandi þessa gjaldeyrisáhættu sem fær mikið rými í umfjöllun frumvarpsins — er mikil gjaldeyrisáhætta að því að eiga eignir í dollurum t.d.? Tökum bara dollarann sem dæmi. Dollarinn er heimsgjaldmiðillinn. Þetta er „reserve currency“, þetta er sem sagt gjaldeyrisforðagjaldmiðillinn. Flest hrávara og vara í heiminum er greidd og verðlögð í dollurum, gríðarlega djúpur markaður. Það er minnsta mál í heimi að selja dollara og kaupa krónur. Það er alltaf hægt að gera það. En það er hins vegar spurning um verðið á gjaldmiðlinum, dollara og öðru slíku, þannig að gjaldeyrisáhættan er raunverulega þessi: Ef íslenska krónan mun rjúka upp úr öllu valdi eða þá að dollarinn muni hrynja. Ef við horfum bara á dollarann, segjum að það komi niðursveifla í hagkerfinu eins og er núna. Hvað gerist þá? Jú, þá fara allir að kaupa dollara og gull. Þetta er gjaldmiðillinn sem mun alltaf standa fyrir sínu. Menn kaupa dollara og gull til að fara í skjól þegar illa árar þannig að sá gjaldmiðill mun ekki hrynja þegar illa árar þannig að gjaldeyrisáhætta af dollaranum er ekki mikil ef við horfum fram á það, þ.e. hún er ekki mikil hvað varðar niðursveifluna.

Mér finnst svolítið að takmarkanirnar í þessu frumvarpi séu of miklar hvað varðar það þegar lífeyrissjóðirnir eru að ávaxta pund sitt erlendis og við getum sagt að það séu miklar hækkanir á erlendum eignum þeirra, eignum þeirra í erlendum gjaldmiðli. Við getum tekið dæmi. Annaðhvort hækkar dollarinn eða evran og þá geta þeir farið upp fyrir þetta 65% þak. Er það svo hræðilegt? Nei, ég myndi ekki telja það. Segjum að það yrðu miklar hækkanir erlendis á erlendum eignum eða eignum lífeyrissjóðanna í erlendum gjaldmiðli, þær færu upp í 70% kannski, 75%. Er það ekki bara hið besta mál? Ég myndi telja að það væri bara mjög gott mál ef erlendar eignir lífeyrissjóðanna hækkuðu en þá væri verið að brjóta regluna um að þeir mættu bara eiga 65%. Það er mjög áhugaverð umfjöllun í frumvarpinu á bls. 6 þar sem fjallað er um þetta. Þar segir, með leyfi forseta:

„Sjóðirnir sem hafa hæsta hlutdeild erlendra eigna telja sig ekki geta farið nær efri mörkum um fjárfestingar í erlendum gjaldmiðlum þótt þeir myndu vilja það. Er það annars vegar vegna óvissu um ávöxtun á erlendum mörkuðum og hins vegar vegna óvissu um gengi íslensku krónunnar, tveir áhættuþættir sem kynnu að fleyta þeim yfir 50% markið og gera þá brotlega við gildandi ákvæði.“

Það er sem sagt óvissuþáttur um gengið og ávöxtunina. Þá virðist vera að ef hækkunin er svo mikil fari lífeyrissjóðirnir upp fyrir 50% markið. Mér finnst það ekki nægjanleg rök til að takmarka lífeyrissjóðina til fjárfestinga erlendis. Auðvitað þarf að tryggja að það verði ekki hrun. Það er það sem þarf að gera. Ég held hérna áfram, það segir á bls. 6, með leyfi forseta:

„Sjóðum sem gerast brotlegir við ákvæðið er gert að lagfæra stöðuna innan tiltekins tíma sem kann að hafa í för með sér óhagstæð viðskipti fyrir þá.“ — Frumvarpið á að taka á þessu. — „Til þess að draga úr þessari áhættu er lagt til að lífeyrissjóðir þurfi ekki að vera undir hámarki erlendra eigna á hverjum tíma heldur skuli þeir við kaup og sölu á eignum ganga úr skugga um að þeir séu innan leyfilegra marka þannig að viðskiptin sem slík geri þá ekki brotlega við hámarkið.“

Segjum að það séu miklar hækkanir erlendis og þeir fari upp fyrir 65% markið. Þá geta þeir ekki verið að kaupa meira erlendis. Það finnst mér ekki nægilega gott. Það er raunverulega líka verið að takmarka það að þeir geti aukið fjárfestingar erlendis þegar erlendir markaðir eru í mikilli uppsveiflu. Það finnst mér ekki nógu gott. Þá verða þeir að halda peningum hérna innan lands þar sem eru kannski fá fjárfestingartækifæri, lítil ávöxtun, en ekki fara út í hinn stóra heim og kaupa meira. Það finnst mér ekki nægilega gott. Ég myndi telja að það væri hægt að hafa rýmra ákvæði þarna, jafnvel undanþáguákvæði, bara byrja á því að hafa undanþáguákvæði, að lífeyrissjóðirnir gætu sótt um undanþágu þar sem staðan á erlendum mörkuðum sé þannig að þeir geti haldið áfram að kaupa erlendis þótt þeir séu komnir upp fyrir 65% markið. Svo er líka hægt að taka þetta yfir lengri tíma. Svona prósentureglur eru ekki góðar þegar kemur að fjárfestingum og auðvitað eiga íslenskir lífeyrissjóðir að ávaxta pund sitt erlendis eins mikið og hægt er til að dreifa áhættu og líka að við tengjumst þá betur hinu alþjóðlega hagkerfi sem við ættum að gera í mun meira mæli.

Annað sem mér finnst vanta í þetta frumvarp er varðandi dreifinguna erlendis, það er bara talað um erlendis og málið búið. Ég tel að það mætti vera í lögunum hérna að það væri þá samsetningin á hinni erlendu dreifingu, samsetningin á hinni erlendu fjárfestingu, segja kannski að hluti ætti að vera í bandaríkjadollar, hluti í evru, hluti á Asíumarkaði og svo ákveðið á Bretlandsmarkaði kannski, sérstaklega varðandi þessa þrjá aðila eða ríki, Bandaríkin, dollarainneignir, og svo evruinneignir — sem er reyndar að hrynja núna og margir spá algjöru hruni á evrunni út af því sem er að gerast þannig að það er nú ekki tryggur gjaldmiðill, margir spá því að Suður-Evrópa gæti jafnvel bara ekki tollað þar inni lengur — og svo varðandi Asíu, ég hefði viljað sjá þannig áhættudreifingu, ekki bara „útlönd, erlendis“ og málið búið. Það er nefnilega mismunandi áhætta erlendis. Ég tel það alltaf sterkt að vera í dollara ef það kæmi mikil kreppa.

Annað sem mætti vera væri t.d. varðandi gull, silfur og aðrar hrávörur. En mér finnst þetta svolítið einblína of mikið á gjaldeyrisáhættuna og það er of þröngur stakkur sniðinn hvað varðar — mig langar að nota orðið, virðulegur forseti, „upside“ á markaðnum, þegar uppsveifla er á markaðnum, en það sem þarf miklu meira að einblína á er að tryggja að það verði ekki hrun á mörkuðum erlendis. Að sjálfsögðu þarf lífeyrissjóður alltaf að eiga nægilegt fjármagn til að standa við skuldbindingar innan lands en ég tel að það sé alltaf auðvelt að selja dollara fyrir íslenskar krónur. Ég held að enginn myndi fúlsa við honum.

Mér finnst að vissu leyti margt gott í þessu frumvarpi en ég efast ekki um, og ég held því fram hér og nú, að það eigi eftir að koma annað frumvarp eftir nokkur ár sem mun fara enn dýpra ofan í þessi mál og gefa lífeyrissjóðum enn meiri heimild til að fjárfesta erlendis.

Ég ætla ekki hafa þetta lengra að svo stöddu en ég vildi koma þessum sjónarmiðum á framfæri og ég tel að þetta séu mikilvæg sjónarmið hvað varðar gjaldeyrisáhættu og varðandi áhættu af því að eiga eignir í erlendum gjaldmiðli sem ég tel að sé svolítið ofaukið í þessu frumvarpi. Það er alveg jafn hættulegt að eiga eignir í íslenskum krónum og í erlendum gjaldmiðli, og jafnvel meiri áhætta. Þetta er raunverulega eignadreifingarfrumvarp og það er í sjálfu sér að takmarka áhættu.