Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 20. fundur,  19. okt. 2022.

staðfesting ríkisreiknings 2021.

327. mál
[18:58]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fjármagnsjöfnuðurinn var sem sagt 60 milljarðar eins og ég vék að áðan. Það er mismunurinn á fjármagnsgjöldum og fjármunatekjum og ég er ekki með þetta sundurliðað frekar hérna við höndina.

Varðandi skuldirnar þá er ég alveg sammála því sem hv. þingmaður segir að við eigum að leggja áherslu á það sem tiltölulega lítið og mjög opið hagkerfi að hafa skuldir lágar. Við erum dálítið sveiflukennt hagkerfi vegna þess að hér erum við ekki með jafnmargar stoðir undir verðmætasköpuninni eins og á við í stærri hagkerfum. Þegar áföll verða í einstaka greinum, eins og við höfum nýlega upplifað í ferðaþjónustu eða gæti orðið í sjávarútvegi eða eftir atvikum í orkufrekum iðnaði, þá getur það haft hlutfallslega mikil áhrif að ein atvinnugrein verði fyrir áföllum. Þetta leiðir til þess að við getum verið sveiflukenndara hagkerfi en mörg önnur og vegna þess er rík ástæða fyrir okkur til að halda skuldum lágum.

Þetta er ein ástæða þess að ég mælti á sínum tíma fyrir nokkuð ströngum fjármálareglum, ekki síst í skuldalega tillitinu þar sem við smíðuðum skuldareglu um 30%. Upphaflega hafði ég mælt fyrir frumvarpi um 45% skuldahlutfall en það frumvarp dagaði uppi á þinginu og síðan þróuðust hlutir með þeim hætti að mér fannst full ástæða fyrir okkur að setja okkur háleitari markmið. Við vorum komin langt undir 30% þegar kórónuveirufaraldurinn skall á. Skuldahlutföll ríkisins eru enn undir 40% sem er mjög hagstæð staða í evrópsku samhengi. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum alltaf að stefna að því að vera undir 30% og það muni tryggja getu okkar til að veita hagkerfinu stuðning ef áföll koma upp á.