Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 20. fundur,  19. okt. 2022.

staðfesting ríkisreiknings 2021.

327. mál
[19:00]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir andsvarið. Hann talaði um skuldaregluna og að skuldahlutfallið ætti að vera undir 30%. Við ætlum að byrja að greiða niður skuldir 2026, ef ég man rétt. Erum við að gera það nógu snemma? Þurfum við ekki að byrja strax? Núna er nánast ofhitnun í hagkerfinu og ef ég skil það rétt þá eru meiri tekjur af ríkissjóði í ár en áætlanir gerðu ráð fyrir. Þurfum við ekki að nýta þann pening sem kemur í ríkissjóð til að lækka þetta skuldahlutfall enn frekar og hafa það sem eitt af kjarnamarkmiðunum. Kjarnamarkmiðið að lækka skuldir og síðan efling heilbrigðis- og velferðarkerfisins — gæti þetta ekki farið saman? Á endanum mun það leiða til þess að vaxtaberandi skuldir verði miklu lægri, við greiðum minna í vexti og verðum líka tilbúin fyrir næstu áföll. Mér finnst við ekki vera tilbúin fyrir næstu áföll sem gætu komið í framtíðinni miðað við þetta háa skuldahlutfall, svo það sé sagt. (Forseti hringir.) En það er líka það að ríkissjóður ætti að geta fjármagnað sig fyrst og fremst innan lands og ætti ekki að þurfa að leita út fyrir landsteinana til að sækja erlent fjármagn.