Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 20. fundur,  19. okt. 2022.

staðfesting ríkisreiknings 2021.

327. mál
[19:02]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það sem hv. þingmaður sagði hljómar allt eins og tónlist í mínum eyrum. Ég fékk þá hugmynd að við gætum kannski stofnað með okkur félag, Vinir ríkissjóðs, og myndum hafa þetta sem okkar fyrsta mál á stefnuskrá. Þarna er kominn annar meðlimur í samtökin. Við gætum gert það að okkar efsta máli á dagskrá að gæta að langtímagreiðslugetu ríkissjóðs. Það er alveg rétt sem hér hefur komið fram að ríkissjóður þarf að geta tekist á við áföll. Viðnámsþróttur hjá mörgum þjóðríkjum í Evrópu er afskaplega lítill núna í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru, ekki síst vegna þess að fyrir faraldurinn höfðu skuldirnar vaxið svo mikið. Við erum hins vegar með lág skuldahlutföll. Í dag erum við ekki að sjá skuldahlutföllin hækka. Það er vegna þess hversu hratt hagkerfið er að vaxa. Því er það ekki bara nafnvirði skuldanna sem skiptir máli heldur hjálpar stærð hagkerfisins. Vöxtur hagkerfisins hjálpar okkur mjög mikið við að lækka skuldahlutföll og fást við skuldirnar. (Forseti hringir.)

Svo verð ég að nefna líka að við erum sérstaklega að sýna gagnsæi um hvaða byrði fylgir skuldum þar sem við birtum sérstaklega reiknaða vexti.