154. löggjafarþing — 20. fundur,  25. okt. 2023.

stórefling innlendrar matvælaframleiðslu og öruggt og fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi landbúnaðar.

7. mál
[16:27]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Það er ástæða til að þakka hv. þingmanni fyrir þessar fyrirspurnir því að þær draga fram ákveðinn áherslumun eða reyndar mjög töluverðan áherslumun okkar á milli. En ég veit ekki alveg hvort Sjálfstæðismenn allir vilja gangast við því sem hv. þingmaður lýsti hér. Ef svo er væri það áhugavert og að mínu mati myndi benda til þess að það sem mann hefur grunað væri rétt, að Sjálfstæðisflokkurinn hefði einfaldlega gefist upp á íslenskum landbúnaði og liti á hann sem hverja aðra atvinnugrein sem þyrfti bara að spjara sig sjálf. En matvælaframleiðsla, landbúnaður, er, eins og ég gat aðeins um í fyrra andsvari, sérstök að því leyti að það er ekki hægt að meta ávinninginn af greininni nema líta á heildarmyndina. Ef eingöngu væri litið til þess hversu mikið hvert fjölskyldubú gæti hagnast á einhverjum brjálæðislegum frjálsum markaði í fullkominni samkeppni þá myndu flest þessara búa eða öll hverfa og eftir yrðu — sem við höfum séð gerast í sumum öðrum löndum, ekki þó í Sviss og Noregi og öðrum löndum sem standa með sinni matarframleiðslu — nokkur risastór verksmiðjubú. Hvaða áhrif hefði það á byggðirnar í landinu og hversu mikið yrði samfélagslegt og efnahagslegt tjón af því ef það eina sem stæði eftir af íslenskum landbúnaði væru einhver hámarkshagkvæmniverksmiðjubú sem líklega stæðu flest hér í kringum Reykjavík? Þó vil ég gera athugasemd við það að þótt margt af þessu sé kannski í samræmi við eitt og annað sem Jónas frá Hriflu hefði talið rétt, sérstaklega við núverandi aðstæður af því að Jónas leitaðist oft við að líta til aðstæðna hverju sinni, þá er þetta algjör nýlunda engu að síður miðað við landbúnaðarstefnu á Íslandi undanfarin ár því að hér er leitast við, frú forseti, (Forseti hringir.) að búa til lausn sem hentar aðstæðum eins og þær eru núna og taka á því neyðarástandi sem blasir við íslenskum landbúnaði.