132. löggjafarþing — 21. fundur,  15. nóv. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[17:54]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og ég sagði áðan er sjálfsagt að skoða þau frávik sem fram koma. En ég vil ekki endilega taka undir að jafnvel þótt frávik séu þá sé það vegna þess að eitthvað hafi farið úrskeiðis. Það er alveg nauðsynlegt að bera saman sambærilega hluti, og eins og ég sagði áðan grunar mig að við séum ekki alveg að gera það hérna. Við getum farið yfir það í góðu tómi. En það er erfitt fyrir mig að átta mig á þeim tölum sem hv. þingmaður les hér upp og hefur fyrir framan sig án þess að ég hafi það fyrir framan mig líka. (JóhS: Ég skal …) Já, ég efast ekkert um að ég fái að sjá tölurnar.

En hvað varðar Seðlabankann verðum við að átta okkur á því að spár Seðlabankans eru allt annars eðlis en spár fjármálaráðuneytisins. (JóhS: Verðbólgumarkmið …) Spárnar eru allt annars eðlis vegna þess að spá Seðlabankans tekur ekki inn í forsendur sínar þær ákvarðanir sem Seðlabankinn tekur í kjölfarið. Fjármálaráðuneytið tekur inn í sínar spár aðgerðir Seðlabankans. Seðlabankinn er sjálfstæður. Þó að hann taki sínar ákvarðanir um verðbólgumarkmið í samráði við ríkisstjórnina þá hefur það ekkert upp á sig fyrir þjóðhagsspár fjármálaráðuneytisins, ef ráðuneytið telur líklegt að einhver frávik verði frá verðbólgumarkmiðinu, að ekki sé tekið tillit til þess í spánni. Því ef það væri ekki gert yrði ég hræddur um að þá gæti eitthvað farið úrskeiðis í spánni og hún væri ekki líkleg til standast ef ekki er tekið tillit til þeirra forsendna sem felast í aðgerðum Seðlabankans.