132. löggjafarþing — 21. fundur,  15. nóv. 2005.

Samkomudagur Alþingis og starfstími þess.

48. mál
[18:37]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Mál það sem hér er til umræðu og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir mælti fyrir áðan tel ég vera mjög þarft mál. Ég held að ég geti alveg lýst því yfir að það fellur mjög að þeim skoðunum sem ég hef haft varðandi starfstíma og fyrirkomulag á vinnutíma á hv. Alþingi og hef reyndar tjáð það opinberlega, m.a. í sjónvarpsþáttum fyrir 2–3 árum. Ég lýsi því stuðningi mínum við að málið sé tekið til umfjöllunar og afgreiðslu í þinginu og að við reynum að stefna að því að breyta starfstíma Alþingis.

Ég er hlynntur því að Alþingi komi fyrr saman á haustin en verið hefur og ég er einnig hlynntur því að því ljúki síðar en verið hefur. Ég tel að það eigi að vera í nokkuð föstum skorðum hvernig Alþingi starfar frá upphafsdegi og til loka þings. Ég er sammála þingmanninum að þau eigi að vera í júnímánuði, hvort sem það væri í fyrstu viku þess mánaðar eða þegar komið væri langleiðina fram að þjóðhátíðardegi eins og lagt er til í frumvarpi hv. þingmanns.

Ég tel að það eigi líka að liggja fyrir að starfstími Alþingis sé almennt til 15. desember ár hvert og þing hefjist aftur eigi síðar en 7. janúar og það sé hinn markaði starfstími sem við vitum að við þurfum að starfa á hinu hv. Alþingi. Á móti þessum breytingum tel ég einnig að skipuleggja þurfi vinnutíma Alþingis öðruvísi og að taka eigi miklu meira mið af því en gert er í dag að Alþingi er vinnustaður fjölskyldufólks, þó að svo hagi til með þann sem hér stendur og kannski fleiri sem komnir eru yfir miðjan aldur að þeir geti verið hér af og til og jafnvel oft fram eftir kvöldi eins og reyndin hefur verið hjá þeim sem hér stendur á þessu hausti, að bíða eftir að mál hans komist á dagskrá dag eftir dag. Ég hef ekkert kvartað undan því, svona er það bara. Hins vegar væri miklu æskilegra ef við vissum að hvaða starfstíma við stefndum.

Ég tel æskilegt að stefnt sé að því að þingfundum ljúki kl. 18. Það sé hinn almenni starfstími sem Alþingi eigi að setja sér og yrði þá að færa þingtímann aðeins framar ef menn geta ekki komið málum fram á þeim lengda starfstíma sem hér er lagður til með því að þingfundum ljúki kl. 18. Svo kann auðvitað að vera að vegna sérstöðu þingsins þurfi að vera heimilt að hafa þingtímann lengri einu sinni í viku. Ef menn hallast að því tel ég að slíkt fyrirkomulag eigi að vera á fimmtudögum, að menn viti þá að hægt sé að vera með lengri þingfundi á þeim degi, en það verður líka að setja því einhver skynsamleg mörk. Ég held að þetta séu eðlilegar breytingar á starfsháttum Alþingis. Við vinnum yfirleitt í nefndum frá kl. hálfníu á morgnana. Síðan er starfsdagurinn oft langur, eins og í dag þegar klukkan er farin að ganga langleiðina í sjö og oft er hann lengri.

Að mínu viti er líka mjög nauðsynlegt að skipuleggja nánar og hafa oftar stutt hlé á þingtímanum, a.m.k. einu sinni á hausti og einu sinni til tvisvar yfir vetrartímann. Það er auðvitað hugsanlegt að tengja seinna hléið við páskavikuna, hvort sem menn vilja hafa það fyrir eða eftir páska, þannig að saman fari möguleiki á því að þingmenn geti ferðast um kjördæmi sín og haldið fundi og að þeir eigi einhvern tímann frítíma eins og aðrir yfir páskahelgina. Ég tel að slík þingfundarhlé megi ekki vera skemmri en fimm til sex dagar til þess að það náist, a.m.k. fyrir okkur í landsbyggðarkjördæmunum, að ferðast um kjördæmin, halda fundi og hitta fólk á svæðunum. Ég segi fyrir mitt leyti varðandi Norðvesturkjördæmið að ef maður á að sinna því vel og ná að komast yfir það í einu slíku hléi veitir ekkert af sex dögum til þess. Það er ekki lengur svo að menn geti treyst á flug til að ferðast og er yfirleitt aldrei hægt fyrir alþingismenn að treysta á flug því þeir þurfa að fara frá einum stað til annars og þar er ekkert á flugið að treysta nema menn fljúgi aftur til Reykjavíkur og síðan þaðan. Það er enginn flýtir í því svo framarlega sem hægt er að nota þjóðvegina en þeir eru auðvitað ekki alltaf færir eins og menn þekkja. Um er að ræða vegalengdir sem eru allt að 600 km til að komast til að halda einn fund og fara síðan til baka o.s.frv. Það er nokkurn veginn jafnlangt suður úr Norðvesturkjördæminu eins og í austur og vestur, þ.e. að fara frá Hólum og vestur á Patreksfjörð. Menn sjá því alveg hvaða tími fer í þetta, ekki síst yfir haust- og vetrartímann þegar komin er hálka og menn geta ekki alltaf leyft sér að vera á hámarkshraðanum.

Ég tel afar nauðsynlegt að menn skipuleggi og skoði þessi mál upp á nýtt. Ég tek sem sagt undir meginefni frumvarpsins og ég tel að í framtíðinni eigi að taka mikið meira tillit til fjölskyldufólks sem starfar hér á Alþingi, bæði þingmanna og starfsmanna þingsins, varðandi vinnutíma okkar. Það er líka nútímakrafa að við skipuleggjum þingstörfin betur og komum málum fram. Mér finnst líka þegar verið er að tala um málatilbúnað, málaframsögu og afgreiðslu mála hér í hv. Alþingi að ekki sé unandi við það til framtíðar að reglan sé sú að á hverju þinginu á fætur öðru séu afgreidd eitt, tvö eða þrjú lítil mál stjórnarandstöðunnar og öll önnur mál látin liggja ár eftir ár eftir ár. Þetta er náttúrlega ekki þingræði, þetta er stjórnræði. Þó að meiri hlutinn eigi vissulega að fá að ráða stefnumótun sinni getur það varla verið svo að öll mál stjórnarandstöðunnar séu þeim svo gjörsamlega andsnúin, að þau þjóni ekki neinum hagsmunum og þeim málum fylgi ekki neitt réttlæti. Ég tel það ekki vera svo. Það þarf því með einhverjum hætti að finna því einhvern farveg að mál fái að koma inn í þingið frá stjórnarandstöðunni eftir 1. umr. og það kemur þá bara í ljós þegar menn kjósa hvort málið á brautargengi eða ekki. Ef mál eru felld þá standa menn bara fyrir atkvæðagreiðslu sinni. Það er alveg óþarfi að hafa þá vinnureglu að mál séu send í nefndir, svæfð þar og sitji föst og fáist ekki rædd og menn segi svo: Ja, ég hefði nú stutt þetta mál hefði það komið inn í þingið. Þetta eru eilífar afsakanir stjórnarliða og hafa verið það í 20 til 30 ár. Þetta lýsir algjörum aumingjadómi okkar þingmanna að þora ekki að taka öðruvísi á málum en með þessum hætti, að ganga um með þessar afsakanir á bakinu.

Ég tel að það sé þarft að hreyfa þessu máli og þó að það sé vissulega svo að samgöngur hafi batnað eins og sagt er í nefndarálitinu þá eru vegalengdir í hinum stóru landsbyggðarkjördæmum því miður þannig að menn mega hafa sig talsvert vel við til að afgreiða þau á einni viku eins og ég veit að hv. þingmaður þekkir. Til þess þarf auðvitað að taka tillit meðan fyrirkomulagið er með þeim hætti að ákveðnir þingmenn eiga að sinna ákveðnum kjördæmum, meðan við höfum ekki stigið skrefið til fulls að gera landið að einu kjördæmi. En ég tel að full þörf sé orðin á að klára það mál og gera Ísland að einu kjördæmi svo það sem einkenni störf okkar sé ekki að menn segi t.d.: Ja, þetta er bara þitt mál og þið skuluð koma því í gegn, þið sem eruð í þessu kjördæmi, okkur sem erum í öðrum kjördæmum kemur þetta ekkert mikið við. Ég held að þessu eigi að breyta þannig að landið verði eitt kjördæmi og þingmenn beri jafna ábyrgð gagnvart öllu. Þá gæti enginn geti afsakað sig með því að þetta eða hitt sé annarra mál og menn hafi lítið um málatilbúnað að segja sé málið flutt eða snúi að einhverjum ákveðnum landshluta. Þetta á m.a. við í samgöngumálum og ýmsum öðrum málaflokkum, t.d. í að efla menntun og fleira og kemur víða fram í málflutningi manna.

Ég kem aðallega hér upp til þess að lýsa stuðningi við þetta mál. Ég tel að málið sé þarft og það eigi að hugsa þetta talsvert upp á nýtt, það eigi að setja okkur almennt skýrari reglur um vinnutíma. Við verðum þá bara að una því að vinnulagið verði fastara. Við hefðum þá meiri vitneskju um starfstíma okkar en er í dag, t.d. fjölskyldumenn, þ.e. að þingmenn sem eru með fjölskyldur og börn. Með því að setja niður að þing hefjist um miðjan september og því ljúki í byrjun júní og að það starfi til 15. desember og hefji aftur störf eigi síðar en 7. janúar þá er auðvitað búið að lengja starfstíma þingsins verulega. Hin stuttu hlé sem þyrfti að gefa til þess að þingmenn gætu sinnt kjördæmum sínum þyrftu þá að hefjast t.d. á miðvikudegi og menn yrðu þá auðvitað að una því að helgin sem inn í þinghléið félli væri vinnudagur, eins og reyndar oft er.

Ég held að það sé dálítið vanmetið þegar menn eru að ræða um störf þingmanna hve margir helgidagar fara í störf. Það er verið að setja niður alls konar fundi vítt og breitt um landið sem hefjast eftir vinnutíma eða eftir að almennri vinnuviku fólks lýkur seinni partinn á föstudögum. Þá þurfum við oft mæta á fundi og síðan eru laugardagsfundir og jafnvel sunnudagsfundir sem við viljum gjarnan mæta á. Það er ekki óalgengt að allar helgar mánaðarins fari í að mæta á einhverja fundi sem maður hefur áhuga á eða fólk hefur þá áhuga á að við mætum á til þess að ræða okkar mál.

Hæstv. forseti. Að lokum vil ég segja að ég hef metið það svo að í sumarhléi þingmanna séum við í fullu starfi og eigum að ferðast um kjördæmi okkar og hitta fólk. Það er beinlínis óskað eftir því, sérstaklega á sumarhátíðir sem er orðin venja að halda nánast í hverju einasta þorpi og sveit á Íslandi. Það er vissulega oftast ánægjulegt að fara á þá fundi og yfirleitt er það svo, en þetta bindur auðvitað starfstíma okkar einnig yfir sumartímann þannig að ég held að ekki sé ofsagt að ef við ætlum að ná virkilegu fríi þurfum við helst að skreppa burt af landinu eða norður á Hornstrandir, þangað sem enginn nær í mann.