135. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2007.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:48]
Hlusta

Karl V. Matthíasson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er bara jákvætt og gott. Ég vil árétta að ég nefndi það áðan í ræðu að það var líka samþykkt tillaga á síðasta fundi Vestnorræna ráðsins í ágúst um að hlutast yrði til um gerð námsefnis um ólík kjör og hlutskipti kvenna á norðurslóðum og það er vel til þess fallið til að skapa umræðu í jafnréttismálum. Það var líka ánægjulegt að finna hve grænlensku konurnar sem starfa í ráðinu voru aktífar og jákvæðar einmitt þegar talað var um þessi mál. Það fannst mér mjög gott.

Svo langar mig til að nefna að þessi samfélög eru náttúrlega ekki eins, eins og við vitum. Það eru ýmis vandamál sem lúta að fátækt og öðru sem Grænlendingar þurfa kannski aðstoð við að taka á. Ég er þeirrar skoðunar að það sé mjög gott og þarft að reyna að efla allt samstarf sem lýtur að skólum og barnamenningu og öðru samstarfi eins og t.d. í ferðamálum. Fyrst hv. þingmaður nefndi ályktanir fyrra ráðs þá er afurð þess líka samstarf Hólaskóla við ákveðna aðila í Grænlandi í sambandi við ferðamennsku og þess háttar. Allt svona starf er mjög gott (Forseti hringir.) og það sem er ánægjulegast í þessu er hve hæstv. utanríkisráðherra er einkar jákvæð í garð alls þessa starfs.