136. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2008.

afkoma heimilanna.

[11:40]
Horfa

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir að taka þetta mál upp, það er kærkomið að hafa enn þá rýmri tíma til að koma inn á þau fjölmörgu mál sem fyrir okkur liggja núna. Í umræðunni hafa verið haldnar málefnalegar og góðar ræður, bæði af hv. fyrirspyrjanda og forsætisráðherra og varaformanni Framsóknarflokksins og margt athyglisvert hefur komið fram.

Mestu máli skiptir í þessu öllu saman, í stóra samhenginu, að koma aftur verði á krónuna, þ.e. að koma gjaldmiðlinum aftur af stað, styrkja krónuna af því að um leið og það gerist, þegar það verkefni tekst fer allt að ganga betur. Þá bæði lækka gengistryggðu lánin, þá minnkar verðbólgan og vísitölubinding lána dregst saman o.s.frv. Þetta er langstærsta einstaka verkefnið sem fyrir okkur liggur núna, þ.e. að styrkja krónuna, koma gjaldmiðlinum aftur af stað, koma verði á krónuna, það skiptir meira máli en allt hitt.

Við erum annars vegar að fjalla um bráðavandann sem nú blasir við bæði fólki og fyrirtækjum og hins vegar leiðarkort okkar til lengri tíma. Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir nefndi áðan og vitnaði til finnsku leiðarinnar út úr þeirri mjög alvarlegu kreppu sem gekk yfir Finnland á sínum tíma þar sem atvinnuleysið varð 20% og afleiðingarnar af því mjög alvarlegar í mjög mörg ár. Af því sem þeir gerðu er margt hægt að læra, t.d. í fjárfestingum í nýsköpun, sprotafyrirtækjum, þeir juku stórlega framlög til velferðarmála og margt, margt annað sem mætti nefna og ég kem kannski að á eftir.

Það má segja að lánadrifinni ofsaþenslu síðustu ára hafi lokið á örfáum dögum. Núna glímum við við afleiðingarnar af því sem er að sjálfsögðu kaupmáttarrýrnun, aukið atvinnuleysi, verðlaus gjaldmiðill, eins og staðan er núna, og stóra málið er að koma krónunni aftur af stað. Þetta bitnar að sjálfsögðu fyrst og fremst á viðkvæmasta fólkinu í landinu. Afleiðingarnar af fjármálakreppunni bitna fyrst á þeim sem minnst hafa, eins og hv. fyrirspyrjandi nefndi áðan, eldra fólkinu, öryrkjum, námsmönnum og þeim sem hafa naumari tekjur, þeim sem hafa ekki borð fyrir báru til að mæta efnahagslegum áföllum. Öllu skiptir núna fyrir okkur að mæta vanda þessa fólks, það skiptir mjög miklu og gríðarlegu máli. Síðan munum við sjá, eins og nefnt var áðan, aðra hópa bætast við þá sem lenda í vanda og hafa ekki átt í efnahagslegum örðugleikum á Íslandi nú um langt skeið. Það er yngra fólk, í mörgum tilfellum fólk með langa skólagöngu að baki sem hefur haft mjög góða stöðu á atvinnumarkaði, fólk sem hefur fjárfest í fasteignaþenslunni gríðarlega miklu þegar fasteignaverð tvöfaldaðist á þremur árum, fólk sem er með miklar fjárskuldbindingar á bakinu bæði í erlendum lánum og innlendum. Þetta er nýr hópur sem bætist í raðir þeirra sem lenda í tímabundnum erfiðleikum út af fjármálakreppunni núna. Þeim hópi þurfum við líka að mæta og það með ýmsum ráðum og ívilnandi, sem lúta sérstaklega að skuldum vegna húsnæðiskaupa.

Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir nefndi áðan tölur um meðalskuldir þessa hóps, fólks sem er undir fertugu og hefur keypt dýrt húsnæði. Þar skiptir langmestu máli að innleiða — eins og stjórnum viðskiptabankanna hefur verið falið — úrræði fyrir einstaklinga sem lenda í greiðsluvanda með lán með veð í íbúðarhúsnæði, sambærileg þeim úrræðum sem Íbúðalánasjóður starfar eftir. Á morgun verða tímamót í því uppbyggingarstarfi sem er að hefjast innan ríkisbankanna, samfélagsleg ábyrgð þeirra fjármálafyrirtækja og annarra verður gríðarleg á komandi árum við það að greiðsluaðlaga fólk og fyrirtæki við þessar erfiðu aðstæður. Samfélagsleg ábyrgð þeirra er ofboðslega mikil og þess vegna skiptir svo miklu máli að hinar varanlegu bankastjórnir verða skipaðar af fjármálaráðherra á morgun með aðkomu Alþingis alls. Þar verður valið fólk í öfluga og faglega stjórnun á bönkunum og þessum nýju stjórnum viðskiptabankanna hefur verið falið af ríkisstjórninni að flýta sem kostur er færslu allra lána með veðum í íbúðarhúsnæði yfir til Íbúðalánasjóðs. Þetta skiptir mjög miklu máli. Þetta er heimildarákvæði sem var sett inn í neyðarlögin og það skiptir miklu máli að því sé beitt þannig að öll veðlán með veði í húsnæði verði þangað flutt.

Fjármálaráðherra hefur nú þegar flutt frumvarp til laga um tímabundna niðurfellingu á stimpilgjöldum vegna skilmálabreytinga og starfshópur, sérfræðingahópur sem félagsmálaráðherra skipaði um daginn, til að koma með tillögur um hvernig bregðast megi við vanda lántakenda vegna verðtryggingar skiptir mjög miklu máli. Það þarf að ríma saman við, eins og kostur er, tillögu og tilmæli sem var beint til viðskiptabankanna fyrir nokkrum vikum um að fyrsta afborganir af gengistryggðum lánum, það var einfaldari framkvæmd, hitt er miklu flóknari framkvæmd. Forseti ASÍ er formaður þessa sérfræðingahóps og þeirra niðurstaðna er að vænta fyrir 10. nóvember. Það eru mjög áríðandi tillögur sem þar eru undir.

Þá er frumvarp um greiðsluaðlögun að koma inn í þingið með aðkomu sýslumanna, Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna og það er það sem kallast þvinguð greiðsluaðlögun. Þar er fjármálafyrirtækinu gert að koma að borðinu og semja við skuldara og þetta er mjög mikilvæg aðgerð til að koma í veg fyrir að fólk lendi í gjaldþroti út af tímabundnum efnahagsörðugleikum. Réttarfarsnefnd er með málið í sínum höndum nákvæmlega núna og það er búist við því að það komi inn í þingið á vegum dómsmálaráðherra fyrir lok þessa mánaðar.

Hrun bankanna var mikið áfall, endurreisnin verður gríðarlegt og langt starf, við þurfum að byggja upp traust aftur í samfélaginu, traust á fjármálafyrirtækjum og eyða tortryggni. Samfélagsleg ábyrgð bankanna er gríðarlega mikilvæg og við þurfum að leita allra leiða til að greiðsluaðlaga fólk og fyrirtæki að þessum nýja veruleika. Þarna skiptir gagnsæi öllu máli og við verðum að byggja upp nýja og öfluga, sanngjarna viðskiptabanka fyrir fólkið í landinu. Miklu skiptir að mæta bráðavanda heimilanna, bráðavanda fyrirtækjanna, það höfum við verið að fara í gegnum í dag í þessari umræðu og munum sjálfsagt ræða áfram og lengi. Það er að bætast skuldugt, ungt fólk í hóp þeirra sem lenda í vanda, við verðum að halda þessu fólki í landinu, við verðum að koma í veg fyrir að það bresti á fólksflótti. Það má ekki gerast eins og áður hefur gerst í kreppum og þess vegna skipta aðgerðirnar sem við erum að vinna að núna öllu máli til að mæta bráðavanda þessa fólks.

Það er afkomuótti í samfélaginu, áhrifin af fjármálaáfallinu og bankahruninu verða lengi að koma fram. Þau hafa komið fram um mánaðamótin í fjölda hópuppsagna, vonandi ganga þær margar til baka þegar fyrirtækin sjá fram á að rekstri þeirra er betur fyrir komið. Það eru margir sárir og hafa orðið fyrir miklum skaða. Góðærið og lífskjörin voru að mörgu leyti fölsk. Við þurfum að byggja upp nýtt og betra Ísland, afstýra fjöldagjaldþrotum með öllum tiltækum ráðum, bæði með greiðsluaðlögun og breytingum á lögum um gjaldþrotaskipti. (Gripið fram í: Og stýrivaxtalækkun.)