139. löggjafarþing — 21. fundur,  5. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[12:29]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar sem gefur mér færi á að útskýra mál mitt örlítið betur. Mér er eiginlega illa við að nota tiltekið orð, en hæstv. fjármálaráðherra hefur notað það og notaði það suður frá, „umkenningaleik“, þ.e. hverjum er um að kenna að ekki gangi betur og einhverjar uppbyggingar fari ekki af stað þarna suður frá.

Ég held að ég hafi sagt það í ræðu minni að eftir hrunið hefur lánshæfismat hrunið og vantrú erlendra aðila á að lána okkur peninga skiljanlega verið mikil. Það er hluti af því vandamáli sem við höfum átt við að etja plús að ýmis atriði varðandi umhverfismat tekur alveg óralangan tíma oft og tíðum, hefur tekið lengri tíma en ætti að gera.

Það má kannski segja sem svo að við höfum byrjað allt of seint á öllu þessu ferli. Það er því miður oft háttur okkar Íslendinga að byrja mjög seint á undirbúningi, smella svo nánast saman fingrum og segja að við þurfum að byrja á þessu á morgun. Fimm, sex, sjö, átta ára undirbúningsferli er frekar óþekkt dæmi.

Bara af því að gagnrýni hefur verið sérstaklega mikil hvað varðar þetta þarna suður frá er það þannig að þegar maður fer í gegnum þetta sér maður að það er ýmislegt sem stjórnvöld eru löngu búin að gera. Fjárfestingarsamningur var afgreiddur á Alþingi samkvæmt frumvarpi iðnaðarráðherra, Suðvesturlínur eru í útboðsferli og skipulag og leyfamál eru leyst. Virkjanaleyfi vegna stækkunar Reykjanesvirkjunar er í vinnslu í góðu samstarfi við Orkustofnun og HS Orku.

Engar kvartanir hafa borist vegna þess, en þar er eitt atriði og það er ekki við stjórnvöld að sakast vegna þess að stjórnvöld klára ekki skipulagsmál. Reykjanesbær og Grindavík eru öðru sinni að ljúka skipulagsferli vegna stækkunar Reykjanesvirkjunar og því gæti lokið nú í haust. Orkustofnun má lögum samkvæmt ekki gefa út virkjanaleyfi fyrr en það skipulag liggur fyrir.

Þetta er grundvallaratriði í þessu máli (Forseti hringir.) plús það að fjármögnunarþátturinn er auðvitað eins og við ræddum hér áðan.