139. löggjafarþing — 21. fundur,  5. nóv. 2010.

ráðherraábyrgð.

72. mál
[14:28]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna um þetta mál mikið úr því sem komið er en ég fagna því að þetta frumvarp sé komið fram, að þetta mál sé komið fram, og tek undir óskir síðasta ræðumanns, hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar, um að málið fái skjótan og góðan framgang í nefndum þingsins.

Það kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að frumvarp sama efnis hafi verið lagt fram af Páli Péturssyni á 106. löggjafarþingi. Það er ansi langt síðan það var gert og hefði kannski betur farið á því að þingið hefði komið því þá í gegn og breytt lögunum í þá veru sem þá var lagt til og er lagt til hér sömuleiðis.

Í greinargerð með tillögu Páls Péturssonar segir, með leyfi forseta:

„Lögin um ráðherraábyrgð frá 4. febrúar 1963 taka ekki til ábyrgðar ráðherra gagnvart Alþingi ef hann greinir því rangt frá, gefur því villandi upplýsingar eða leynir það upplýsingum er mikilvægar eru fyrir meðferð máls. Ráðherrar hafa því ekki nauðsynlegt aðhald og geta freistast til að gefa Alþingi rangar eða villandi upplýsingar eða leyna það mikilvægum upplýsingum.“

Áfram segir í greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Það er mjög mikilvægt að Alþingi geti treyst því að upplýsingar, er ráðherrar gefa því, séu fullnægjandi og sannleikanum samkvæmar og að ráðherra leyni ekki upplýsingum er hafa verulega þýðingu við meðferð máls.“

Þannig hljóðaði greinargerð með þeirri breytingartillögu sem hv. fyrrverandi þingmaður Páll Pétursson gerði á þingi um ráðherraábyrgð á 116. löggjafarþingi.

Ef við gæfum okkur að þetta mál hans — ætli sé ekki hátt í aldarfjórðungur liðinn síðan þetta mál var tekið hér upp á þingi og borið fram — hefði náð fram, væri kannski margt með öðrum hætti í dag en er í raun og veru. Hverju erum við að breyta? Um hvað fjalla lögum ráðherraábyrgð?

Með leyfi forseta, hljóðar 1. gr. laganna sem hér segir:

„Ráðherrar bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum eftir því sem fyrir er mælt í stjórnarskrá og lögum þessum. Ákvæði almennra hegningarlaga um brot í opinberu starfi taka einnig til ráðherra eftir því, sem við getur átt.“

Í 6. gr. laga um ráðherraábyrgð segir:

„Hver ráðherra ber ábyrgð á stjórnarerindum þeim, sem út eru gefin í hans nafni, nema ákvörðun sé án hans atbeina tekin af undirmanni, sem til þess hefur heimild samkvæmt venju, eða eðli máls, eða starfsmaður hafi vanrækt að leggja erindi fyrir ráðherra. Ráðherra verður þó einnig sóttur til ábyrgðar fyrir þvílíkar ákvarðanir, ef honum hefur verið um þær kunnugt …“

Í 8. gr. laga um ráðherraábyrgð segir, með leyfi forseta:

„Í samræmi við ákvæðin hér á undan, varðar það ráðherraábyrgð eftir lögum þessum: a. ef hann sjálfur gefur út fyrirmæli eða veitir atbeina sinn til, að út séu gefin fyrirmæli forseta um málefni, sem eftir stjórnarskránni verður aðeins skipað með lögum eða heyrir undir dómstóla; b. ef hann leitar eigi samþykkis Alþingis, þegar skylt er samkvæmt stjórnarskránni; c. ef hann annars framkvæmir sjálfur, fyrirskipar framkvæmd á eða lætur viðgangast að framkvæmt sé nokkuð það, er fer í bága við stjórnarskrá …“

Lagt er til að 10. gr. verði breytt til samræmis við það sem kemur fram í því frumvarpi sem hér er til umræðu, að við 10. gr. laganna bætist nýr stafliður. Hún hljóðar þannig í dag, með leyfi forseta:

„Loks verður ráðherra sekur eftir lögum þessum: a. ef hann misbeitir stórlega valdi sínu, enda þótt hann hafi ekki beinlínis farið út fyrir embættistakmörk sín; b. ef hann framkvæmir nokkuð eða veldur því, að framkvæmt sé nokkuð, er stofnar heill ríkisins í fyrirsjáanlega hættu, þótt ekki sé framkvæmd þess sérstaklega bönnuð í lögum, svo og ef hann lætur farast fyrir að framkvæma nokkuð það, er afstýrt gat slíkri hættu, eða veldur því, að slík framkvæmd ferst fyrir.“

Þetta er nú grein sem okkur er kunnugt um hér á Alþingi og höfum verið að fjalla um undanfarin missiri og hefur leitt til þess að Alþingi, þjóðþing Íslendinga, ákvað að kalla saman landsdóm í fyrsta skipti til að rétta yfir fyrrverandi ráðherra.

Ég tel að vel fari á því að sú tillaga sem hér er lögð fram, eða í þá áttina sem hér er lagt fram — ég tel rétt að umræða fari fram um þetta í nefnd. Kannski má bæta úr því sem þarna er lagt til af hálfu flutningsmanna frumvarpsins að nýr stafliður falli þarna inn í 10. gr. laganna með það í huga að auka á ábyrgð ráðherra. Ég held að það sé löngu tímabært og hafi kannski verið betur gert á þeim tíma sem þetta mál var fyrst borið fram á Alþingi af Páli Péturssyni.

Ég hefði einnig viljað sjá breytingu á 14. gr. laga um ráðherraábyrgð. Kannski verður það rætt í nefndum Alþingis sem taka þetta mál til umfjöllunar. Í þeirri grein segir, með leyfi forseta, um 14. gr.:

„Málshöfðun eftir lögum þessum getur eigi átt sér stað, ef 3 ár líða frá því, er brot var framið.“

Ég tel ekki útilokað og mundi jafnvel mælast til þess af flutningsmönnum að þeir beiti sér fyrir því að lög um ráðherraábyrgð yrðu skoðuð í víðara samhengi en lagt er fram í frumvarpinu, m.a. með það í huga hvort rétt sé að lengja þennan tíma úr þremur árum í lengri tíma samkvæmt þeirri umræðu sem átti sér stað varðandi þau mál sem við tókum ákvörðun um hér fyrr í sumar, um að draga fyrrverandi ráðherra til ábyrgðar, eða kalla landsdóm saman til að rétta yfir fyrrverandi ráðherra.

Það er margt í sögu okkar sem mælir með því að slíkar breytingar verði gerðar á lögum um ráðherraábyrgð. Ég geri t.d. ekki ráð fyrir að Páll Pétursson hafi flutt þetta mál upp úr þurru, að ekki hafi verið ástæða fyrir því að hann hafi ekki talið ástæðu fyrir því að flytja mál af þessu tagi fyrir þetta mörgum árum. Ég tel að sagan sýni okkur að hann hafi haft rétt fyrir sér hvað það varðar og rétt sé að fylgja þessu máli eftir þó síðbúið sé.

Ég tel að viðbrögðin við málinu í umræðum hér í dag undirstriki líka vilja Alþingis til að taka betur á þessum málum en verið hefur. Þó að menn hafi viljað tengja þetta sérstaklega, alla vega einstakir þingmenn, við tiltekið mál kennt við Icesave frekar en einhver önnur held ég að þetta sé fyrst og fremst lærdómur sem við eigum að draga af sögunni og þeirri stöðu sem við erum í í dag. Það mætti nefna ótalmörg mál sem snerta það að ráðherrar hafi gefið Alþingi villandi upplýsingar eða jafnvel beinlínis rangar upplýsingar. Sum þeirra mála eru af því tagi að við getum rakið efnahagserfiðleika okkar, efnahagshrunið, beinlínis til slíkra mála. Hér fór í mörg ár fram umræða um einkavæðingu bankanna og þá voru veittar upplýsingar í þingsal af hálfu þeirra ráðherra sem þá sátu í ríkisstjórn Íslands um framkvæmd einkavæðingarinnar, um formið á einkavæðingu bankanna og um eftirleikinn af því sem gerðist í kjölfar þess.

Það má nefna önnur mál sem varða ekki með nokkrum hætti efnahagshrunið. Ég nefni umdeilt mál sem var í tengslum við innrásina í Írak á sínum tíma þar sem ráðherrar voru sakaðir um að gefa þinginu rangar upplýsingar eða leyna þingið upplýsingum um það mál, eða segja jafnvel ósatt um að ráðherrar tóku ákvörðun um þau mál en ekki þingið.

Það má sjálfsagt fara út um víðan völl í sögunni og þarf ekkert að fara sérstaklega langt aftur í tímann til að finna rök fyrir því að breyta lögunum í þessa veru.

Það er kannski ekki aðalatriðið. Við getum hvert um sig sjálfsagt tínt til þær ástæður sem okkur sýnist til að styðja þetta mál. Þannig verður það auðvitað og við getum rökstutt afstöðu okkar með tilvísun til einstakra mála frekar en annarra. Það er ekki aðalatriðið í þessu máli. Ég tel að aðalatriðið sé að bæta úr þessum lögum, skerpa á ráðherraábyrgðinni og gera löggjafarsamkomunni það auðveldara að kvelja ráðherra til að axla sína ábyrgð og koma fram með sómasamlegum hætti við þingið, ekki bara stundum eða oftast heldur alltaf. Við eigum að geta treyst þeim upplýsingum sem hér koma inn um öll þau mál sem ráðherrar bera fram.

Ég vil undirstrika að ég tel þetta mál vera gott innlegg í þá umræðu og býst við að það fái ítarlega og góða umfjöllun í nefndum þingsins og jafnvel með það í huga, eins og ég nefndi hér áðan, að skoða það út frá fleiri sjónarhornum og hvort ekki sé rétt að taka lög um ráðherraábyrgð til víðtækari endurskoðunar en eingöngu varðandi 10. gr. sem ég styð þó að verði gert.