140. löggjafarþing — 21. fundur,  14. nóv. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[16:16]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Hér liggur fyrir ósk um heimild til fjármálaráðherra til að ganga frá uppgjöri og greiðslum til Landsbankans hf. vegna mismunar á eignum og innstæðuskuldbindingum Sparisjóðsins í Keflavík. Ég benti á það í framsögu með minnihlutaálitinu og í skýringum með atkvæðagreiðslunni áðan að fyrir liggur að ríkissjóður kemst aldrei hjá 11,2 milljarða kr. greiðslu að lágmarki vegna þessa máls. Það er óábyrgt þegar fjallað er um ríkisfjármálin með þeim hætti sem greinir í fjáraukalagafrumvarpinu og áliti meiri hluta fjárlaganefndar að geta ekki um þá skuldbindingu sem hér liggur fyrir.

Þetta er lágmarksfjárhæð og mat manna er að hún geti farið allt upp undir 30 milljarða kr. og ekki er minnst einu einasta orði á það í fjáraukalagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar og því síður í tillögum meiri hlutans. En það liggur fyrir að greiðsluskuldbindingin er til og þó svo að það liggi ekki fyrir, þess vegna ekki fyrir áramót, hver fjárhæðin verður spái ég því, (Forseti hringir.) hvernig svo sem hlutum reiðir af, að því muni verða laumað inn í ríkisreikning fyrir árið 2011 með sambærilegum hætti og áður hefur verið gert með sumar skuldbindingar af þessum toga.