141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

133. mál
[17:53]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að taka undir þær athugasemdir sem hér hafa komið fram varðandi gildistöku þessa máls. Hér er um að ræða um margt flókna aðgerð, uppskiptingu stofnana og breytingu á verkefnum þeirra.

Á undanförnum missirum hefur verið nokkur hringlandi hvað varðar stjórnsýsluna, Stjórnarráðið. Breytingar á fjölda ráðuneyta og verkefni þeirra hafa verið að breytast og færast á milli. Það sem hér er um að ræða er af sama meiði, þ.e. að færa til stofnanir eða verkefni þeirra og þá skiptir miklu að það sé gert með mjög vönduðum hætti þannig að menn séu ekki í kappi við klukkuna í svona málum.

Virðulegi forseti. Það er algjör óþarfi að setja okkur þannig tímamörk að tilgangi laganna, ef þetta frumvarp verður að lögum, sé einhvern veginn stefnt í hættu vegna þess að við ætlum okkur um of hvað varðar tíma.

Hér er verið að leggja til breytingar sem eiga að standa um langa hríð, vænti ég, og því engin sérstök ástæða til að vera að horfa á þá dagsetningu sem gert er ráð fyrir í 20. gr. frumvarpsins um að þau komi ekki til framkvæmda fyrr en 1. janúar 2013 en taki samt sem áður þá þegar gildi þegar búið er að samþykkja lögin, en komi sem sagt ekki til framkvæmda fyrr en 1. janúar 2013. Ég held að í umræðunni hafi komið fram alveg nægjanlega sterk rök og áhyggjur sem gera það að verkum að ég vona að sú nefnd sem um þetta mál fjallar muni taka það til athugunar og gera breytingu þar á.

Virðulegi forseti. Ég vil einkum beina sjónum mínum að fjárhagslegum þætti málsins. Ég er sannfærður um að fullur vilji er hjá þeim sem að málinu standa og flytja það hér að ná fram hagræðingu í rekstri þessara stofnana og í starfsemi þeirra. Jafnframt gef ég mér það líka að um leið sé verið að reyna að tryggja að þjónustan skerðist ekki og verði jafnvel betri.

Áður en ég sný mér að einstökum þáttum hvað varðar fjárhagshlutann vil ég segja að eitt af stærstu verkefnunum sem við stöndum frammi fyrir hér á Alþingi er hvernig við ætlum að breyta ríkisrekstrinum þannig að við getum sparað, dregið úr kostnaði en um leið tryggt það að áfram sé veitt sú þjónusta sem við viljum og sú þjónusta uppfylli þær gæðakröfur sem við gerum til hennar.

Þetta á við um allan ríkisrekstur. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að vera opin fyrir því að leita allra leiða, þar á meðal þeirra sem hér er verið að skoða, að sameina stofnanir og færa til verkefni þannig að ná megi fram hagræðingu. Ég er líka þeirrar skoðunar — og ég gef mér að verið gæti að það stangaðist á við pólitískar skoðanir flutningsmanna þessa frumvarps — að skoða eigi það mjög vel hvar við getum komið fyrir samvinnu einkaaðila og ríkisins þannig að hægt sé að draga úr því að ríkið veiti þjónustuna og einkaaðilar komi þar að en það sé ríkisins að tryggja að þjónustan uppfylli ákveðin skilyrði og að þeir sem þurfi aðgang að þjónustunni hafi aðganginn.

Sú nálgun hefur ekki bara í för með sér að hægt sé að draga úr kostnaði ríkisins heldur má líka gera því skóna að þetta ýti undir nýjungar í ríkisrekstrinum, nýjar hugmyndir, nýja aðkomu, nýja sýn og það sem meira er, íslensk fyrirtæki sem væru að veita slíka þjónustu í samstarfi við ríkisvaldið mundu þar með byggja sig upp með sína þekkingu og kunnáttu og þar með jafnvel verða gjaldgeng á stærri markaði með þjónustu sína til að selja úr landi þekkingu og kunnáttu á þessu sviði.

Virðulegi forseti. Með öðrum orðum, ég held að við eigum að vera opin fyrir því að nýta þá möguleika sem felast í samvinnu ríkisvaldsins og einkaaðila rétt eins og við eigum að vera opin fyrir því að gera þær breytingar á starfsemi stofnana, verkefnum o.s.frv.

Hvað varðar þann þátt sem hér er verið að leggja upp með til að ná fram sparnaði, umtalsverðum sparnaði reyndar, þá hljótum við að vera sammála um að mjög æskilegt væri og jákvætt ef það gengi fram. Mér sýnist þó í gögnum þessa máls að það sé kannski ekki nægjanlega vel mótað hvernig sá sparnaður muni nást í rekstri þessara stofnana og menn gefi sér að það verði hagræðing sem náist fram með þessu. Það verði einhvers konar hagræðingarkrafa. Ég held að það væri gagnlegt að þegar við förum af stað með svona mál að búið væri, áður en það kemur til þingsins, að setja upp þessi verkefni, strúktúrinn eða uppbyggingu þessara stofnana þannig að sýnt væri fram á það með rekstraráætlunum sem við gætum skoðað hér í þinginu, hvort raunhæft sé að sá sparnaður náist sem að er stefnt. Með öðrum orðum, að það verði ekki ráðist í þetta — mér finnst að vissu leyti að hér sé verið að koma með málið öfugt inn, þ.e. að við séum fyrst að veita heimildina — og síðan grípi menn til þeirra aðgerða sem stendur til að grípa til. Ég vildi frekar að búið væri að leggja þær hugmyndir fram og að við hefðum þær hér svo að við gætum lagt mat á þær hvort raunhæft væri að við næðum fram þeim sparnaði sem lagt er upp með í frumvarpinu.

Virðulegi forseti. Því miður hefur það allt of oft gerst að mínu mati þegar um er að ræða sameiningu stofnana eða breytingar í Stjórnarráðinu að undanförnu, sem gjarnan hafa verið lagðar til undir þeim formerkjum að hægt sé að ná fram hagræðingu og sparnaði, að nefna má dæmi þar sem menn hafa haft áhyggjur af því að slíkur sparnaður væri ekki að nást. Þetta á ekki bara við um þetta mál eitt, heldur almennt um það hvaða verklag við höfum hér í þinginu hvað þessi mál varðar.

Virðulegi forseti. Ég vek athygli á þeim orðum sem eru í greinargerð með málinu, í fylgiskjali frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, fjárlagaskrifstofu. Á blaðsíðu 22 segir: „Ekki liggur þó fyrir áætlun um það hvernig hagræðingin muni skiptast á milli Farsýslunnar og Vegagerðarinnar.“

Enn og aftur, æskilegt væri í meðförum þessa máls hér í þinginu og áður en þetta frumvarp verður samþykkt og gert að lögum, að útfærð áætlun liggi fyrir um þessa hluti. Ég held að það sé bara sanngjörn krafa okkar þingmanna að þannig sé staðið að málum.

Virðulegi forseti. Þetta er hluti af svo stóru verkefni, sem er að ná betri tökum á ríkisrekstrinum og hluti af því er einmitt að meiri agi verði í þessum málum þannig að inn í þingið komi greinarbetri og skýrari upplýsingar um það hvernig sparnaði verði náð fram.

Ég vil líka gera að umræðuefni í framhaldinu fjárhagshlutann og held mig þá við álitið frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Þar segir, með leyfi forseta:

„Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að Farsýslunni verði heimilt að innheimta ný gjöld vegna eftirlits með skoðun ökutækja og starfsleyfum skoðunarstöðva. Áætlað er að tekjur stofnunarinnar af þessum gjöldum verði um 5 millj. kr. og að þær komi fram á tekjuhlið ríkissjóðs. Einnig er lögð til hækkun á umferðaröryggisgjaldi úr 400 kr. í 500 kr. en það gæti aukið tekjur um nálægt 28 millj. kr. Að lokum er gert ráð fyrir hækkun á gjaldskrá vegna útgáfu lofthæfisskírteina og má reikna með því að sú hækkun leiði til 3,9 millj. kr. tekjuaukningar.“

Í fyrsta lagi velti ég því fyrir mér hvers vegna við ættum að vera að leggja á aukin gjöld. Nú er verið að sameina þessar stofnanir, sameina þessi verkefni og áætlað er að sameiningin ein og sér leiði til þess að það dragi umtalsvert úr rekstrarkostnaði og talið er reyndar, virðulegur forseti, að það séu um 160 millj. kr. sem eiga að sparast. Það er ágætt en ég skil ekki hvers vegna við ættum að hækka gjöldin á borgara landsins á sama tíma. Það er mjög jákvætt ef við náum að draga úr kostnaði við starfsemi ríkisins um 160 millj. kr. á sama tíma og ef okkur tekst að viðhalda sama þjónustustigi og jafnvel betra ef það gengur eftir.

En því er ósvarað og ég hef ekki heyrt nákvæm rök fyrir því í umræðunni hvernig á því standi að verið er að leggja til þessar hækkanir umfram síðan þann sparnað sem verður vegna samlegðaráhrifa. Að mati fjármála- og efnahagsráðuneytisins verða heildaráhrifin á ríkissjóð 200 millj. kr. Ég tel að skoða eigi það hvort nauðsynlegt sé að ráðast í þær hækkanir, hvort nauðsynlegt sé að við aukum álögur á borgarana með þeim hætti. Það þurfa að minnsta kosti að vera mjög skýrar ástæður fyrir slíku og ég sé ekki að þær séu nauðsynlegar vegna þessa.

Hitt er síðan, sem skiptir auðvitað enn meira máli, sú athugasemd sem kemur frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, en hér stendur, með leyfi forseta:

„Fjármálaráðuneytið telur það ekki vera heppilegt fyrirkomulag að ríkistekjur séu markaðar með þessum hætti til starfsemi ríkisaðila.“

Hér komum við, virðulegi forseti, að gömlum kunningja, sem eru mörkuðu sértekjurnar. Ég er þeirrar skoðunar að þetta sé réttmæt ábending af hálfu ráðuneytisins. Það sé eðlilegt, miklu eðlilegra að þessum stofnunum sé ætlaður rekstrargrunnur frá ríkissjóði, að fjárframlagið komi frá ríkissjóði, en að við séum ekki að leggja upp með slíkar sértekjur. Þær eru til vandræða í kerfinu. Þetta sértekjufyrirkomulag er vandamál hjá okkur. Við höfum séð það meðal annars varðandi Fjármálaeftirlitið og þá umræðu sem hér varð vegna Fjármálaeftirlitsins og sértekjustofns þeirrar stofnunar. Við erum nýlega búin að fara í gegnum umræðu um Ríkisútvarpið og þær sértekjur sem þar er um að ræða og það eru fjölmörg önnur dæmi í okkar kerfi þar sem stofnanir búa við það eða njóta þess að hafa slíka sértekjustofna og eru þess vegna í allt annarri stöðu en margar aðrar ríkisstofnanir sem ekki hafa slíka möguleika til tekjuöflunar. Sem getur til dæmis valdið því að búið er, eins og á þeim tímum sem við nú lifum, að skera niður til margra mjög mikilvægra stofnana í samfélaginu, þar sem við horfum á hverja einustu krónu sem rennur til þeirra. Mikil umræða fer fram um það hvaða fjármunir renna þangað en síðan eru aðrar stofnanir sem hafa þennan sértekjumöguleika í allt annarri stöðu og í allt annarri umræðu en þær stofnanir sem búa við hið hefðbundna fyrirkomulag.

Virðulegi forseti. Ég tel þess vegna að taka eigi mark á því sem efnahags- og fjármálaráðuneytið segir að það sé ekki gott fyrirkomulag að leggja upp með einhvers konar sértekjugrunn. Þá skiptir engu máli um hversu háar tölur er að ræða. Hér er um að ræða ákveðin meginprinsipp, ákveðin meginsjónarmið sem er nauðsynlegt að hafa í huga og ekki sé verið að búa til fyrirkomulag sem síðan getur þanist út og aukið við sig eftir því sem tímar líða fram.

Virðulegi forseti. Ég er ekki í færum um að leggja eitthvert sjálfstætt mat á faglegan ávinning af þessari framkvæmd eða þessari sameiningu stofnananna. Ég reikna með að aðrir þingmenn séu mér mun hæfari til þess. Það er þó þannig að ég hef stundum velt því fyrir mér, þó að það geti verið fjárhagsleg rök fyrir sameiningu stofnana, að menn gæti þess þó að stundum getur það verið þannig í tiltölulega litlum stofnunum að mikil sérhæfing sé á ferðinni, að verkefnið sem stofnunin er að sinna sé það sérhæft að það taki langan tíma að byggja upp sérhæfingu á því sviði.

Þá leikast stundum á, eða hætta er á því að það geti gerst, annars vegar hagræðingarsjónarmið og hins vegar sjónarmið sem snúa að gæðum þeirrar þjónustu sem verið er að veita. Þá skiptir máli við alla þessa framkvæmd að menn fari varlega með það, fari fram af varfærni þegar kemur að því að færa til verkefnin þannig að það týnist ekki á þeim tíma þekking og sérstaklega sérfræðiþekking á þessum sviðum. Í þessari umræðu hefur reyndar verið bent á það sem snýr að hafnarmannvirkjum og því sem snýr að samgöngum á hafi, að sjónarmið hafa komið fram um að það sé kannski ekki skynsamlegt að sú starfsemi fari þar inn. Um sé að ræða þannig sérþekkingu að betra sé að halda henni í einstakri stofnun.

Það er sjálfsagt að fara yfir slík rök og það er reyndar líka sjálfsagt að hafa í huga að ákveðin innbyggð tregða er í stofnunum að sameinast ekki eða hverfa ekki inn í aðrar stofnanir, og það er skiljanlegt. En ég held að það sé alveg einnar messu virði að menn hafi það á hreinu að þær röksemdir sem hafa komið fram um að mögulega dragi úr sérþekkingu á þessu sviði, að það sé sjálfsagt mál að minnsta kosti að fylgjast með því og að menn hafi það á hreinu að ekki sé verið að draga úr þekkingu okkar á þessu mikilvæga sviði. Það þarf auðvitað ekkert að ræða það hversu miklu máli skiptir að allt sem snýr að samgöngum, hvort sem er á hafi eða landi, sé allt saman unnið af mikilli þekkingu og vandvirkni.