141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

133. mál
[18:10]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Það er rétt, sem kom fram hjá hv. þingmanni í upphafi hans máls, að það er ástæðulaust að vera að flýta sér, þ.e. að reka á eftir þessu máli, enda hefur það ekki verið gert. Þetta mál hefur verið til umræðu í þingnefndum allt kjörtímabilið. Ég var á sínum tíma formaður samgöngunefndar og ég held að ég hafi fengið þetta mál til umfjöllunar strax veturinn 2009–2010 og að það hafi verið klárt til afgreiðslu að minnsta kosti tvö síðustu þing, þ.e. síðast í vor og einnig vorið 2011. Málið er því vel undirbúið. Að mínu mati hefur það verið rætt til fullnustu, rætt í botn, öll sjónarmið hafa fyrir lifandi löngu komið fram í því og ég held að flestir hafi myndað sér skoðun á því og að sú skoðun sé orðin nokkuð skýr, þ.e. ákveðinn hluti þingsins leggst gegn málinu og ákveðinn hluti þess vill afgreiða það.

Ég er í þeim hópi sem telur að málið sé fullrætt og að tími sé kominn til að afgreiða það. Ég tel það varða virðingu fyrir starfsmönnum þeirra stofnana sem um ræðir og fyrir stofnununum sjálfum að þessu máli verði lokið hér og þingið afgreiði það og ráði örlögum þess.

Ég er samt í vafa um afstöðu þeirra sem leggjast gegn málinu, þ.e. á hverju raunveruleg andstaða byggist. Ég heyrði þó nýja tóna hjá hv. þm. Illuga Gunnarssyni og ég ætla að spyrja hann að því hvort ég skilji það rétt að það sé í sjálfu sér ekki sameining stofnananna sem vekur andstöðu hans gegn málinu. Mér fannst hann gefa í skyn að ekkert væri því til fyrirstöðu að sameina stofnanirnar eins og til væri lagt (Forseti hringir.) ef það væri gert á annan hátt, meðal annars með því að einkavæða þær með einhverjum hætti (Forseti hringir.) og opna á aðra möguleika í rekstri þeirra. Skildi ég hv. þingmann rétt hvað þetta varðar?