142. löggjafarþing — 21. fundur,  3. júlí 2013.

stjórnarskipunarlög.

5. mál
[17:28]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil lægja áhyggjur þeirra sem hafa áhyggjur af því að allt verði vaðandi í stjórnarskrárbreytingum vegna þessara breytinga. Þessi gríðarhái stuðull þarna, 40% kosningarbærs fólks sem þurfi að segja já við breytingum, gerir það í raun óhugsandi að stjórnarskránni verði breytt með þessum breytingum.

Hv. þingmaður nefndi sérstaklega að mjög óeðlilegt væri að hafa bráðabirgðaákvæði í stjórnarskrá. Gott og vel. Þá vil ég bara minna á að stjórnarskráin sem við höfum í dag er eiginlega bráðabirgðaákvæði, bráðabirgðaskrá í raun. Það átti að semja nýja stjórnarskrá lengi vel þar til menn gáfust eiginlega upp á að láta sig dreyma um það. En við stofnun lýðveldisins var ekki eins og þjóðin kæmi sér saman og ákveddi hvernig hún ætlaði að gera sína fínu íslensku stjórnarskrá. Við erfðum hana frá Danmörku. Við ætluðum að breyta henni. Við ætluðum að hafa hana nýja. Þetta er ekki út af tíðaranda, ekki bara út af bankahruninu, það var ekki bara þess vegna sem til stóð að koma með nýja stjórnarskrá heldur var löngu kominn tími til.

Það er í raun ekki mikið meira um það að segja nema það að stjórnarskráin — jú, vissulega á hún að vera akkeri löggjafarinnar, auðvitað, til þess er hún. Hún á ekki að breytast eftir tíðarandanum en það hefur staðið til frá upphafi lýðveldisins að skrifa nýja stjórnarskrá. Kominn tími til.