142. löggjafarþing — 21. fundur,  3. júlí 2013.

stjórnarskipunarlög.

5. mál
[17:33]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur komið fram áður að Píratar voru ekki hluti af því samkomulagi sem gert var á milli þingflokkanna, sem skýrir kannski það að við erum hér í andsvörum. Það er gott, því að þá hef ég haft meiri tíma til að útskýra mál mitt.

Ég vísa því aftur á bug að stjórnarskráin hafi verið skrifuð sem bráðabirgðaplagg og bendi hv. þingmönnum á að fari þeir annaðhvort inn á vef Alþingis eða nálgist stjórnarskrá Íslands koma þær breytingartillögur fram sem gerðar hafa verið á stjórnarskránni.

Stjórnarskráin er vel útbúin. Hún hefur staðist tímans tönn. Gerðar hafa verið á henni breytingar sem þurft hefur að gera. Mannréttindakaflinn kom inn 1995. Ég hafna því alveg að um bráðabirgðaplagg sé að ræða. Eins og ég benti á er stjórnarskrá Íslands, eins og aðrar stjórnarskrár hvar sem er í heiminum — þau ríki sem hafa stjórnarskrá sækja stjórnarskrá sína allt aftur til frönsku mannréttindabyltingarinnar. Þannig að það sé bara sagt hér. Svo fór þetta um heiminn og varð að stjórnarskrám. Við vitum hvernig stjórnarskrá Bandaríkjanna er, hún er einnig upphafið og franska stjórnarskráin. Síðan komu stjórnarskrár á Norðurlöndum og við tókum þær inn í myndina.

Hvers vegna að vera að finna upp hjólið, virðulegi forseti? Hvers vegna að finna upp hjólið? Farið var út í tilraunastarfsemi með það á síðasta kjörtímabili sem allir vita hvernig endaði. Hv. þm. Árni Páll Árnason sá það eina ráð að ýta þeirri tilraunastarfsemi sjálfur út af borðinu þrátt fyrir að flokkur hans hafi í upphafi farið af stað með málið. Eftirhreyturnar eru hér í dag sem við ræðum nú, frumvarp um breytingarákvæði á breytingarákvæði stjórnarskrárinnar. Ég tel það ekki til farsældar, sér í lagi vegna þess, eins og ég sagði áðan, að um er að ræða bráðabirgðaákvæði.