145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

háhraðanettengingar.

[11:00]
Horfa

Erna Indriðadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Háhraðatengingar eru í dag jafn nauðsynlegar og síminn var áður og samgöngur milli manna almennt. En það vantar mikið upp á að fólk á landsbyggðinni sitji þar við sama borð og aðrir. Þetta er alvarlegt mál þar sem rætt er um að ný tækifæri fyrir landsbyggðina muni einmitt felast í fjarvinnslu ýmiss konar og fjarkennslu en það stoðar lítið ef efnið kemst ekki til skila.

Þetta er gríðarlegt hagsmunamál fyrir hinar dreifðu byggðir í landinu og í þingsályktunartillögu Samfylkingarinnar, um bráðaaðgerðir í byggðamálum, var einmitt lagt til að innanríkisráðherra legði fram áætlun um byggingu háhraðatengingar um allt land og hringtengingu ljósleiðarans. Fyrir ári voru svo kynntar tillögur stjórnarflokkanna um leiðir til að koma háhraðaneti um landið allt. Þær komu fram í skýrslu sem heitir Ísland ljóstengt, landsátak í uppbyggingu fjarskiptainnviða. Um er að ræða útfærslu á markmiðum ríkisstjórnarinnar í byggðamálum. Í skýrslunni kom fram að aðgangur að háhraðafjarskiptatengingu væri grunnþjónusta sem öllum ætti að standa til boða óháð búsetu. Markið var sett á að þetta yrði að veruleika fyrir árið 2020. Heildarkostnaður við verkefnið er talinn nema 5 til 7 milljörðum kr. og til að borga fyrir framkvæmdina átti að skipta kostnaði við tenginguna jafnt milli þriggja aðila, Mílu, sem skyldi greiða 250 þús. kr. fyrir hverja heimtaug, notandans, sem átti að greiða sömu upphæð, og 250 þús. kr. áttu að koma úr svokölluðum Jöfnunarsjóði alþjónustu en hann er í vörslu Póst- og fjarskiptastofnunar.

Síðan hefur lítið heyrst af þessu máli og margir bíða úti um allt land eftir úrbótum. Ég spyr hæstv. innanríkisráðherra: Hver er staða þessa verkefnis og hvert verður beint framlag ríkisins í Jöfnunarsjóð alþjónustu á næsta ári, 2016?