145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

háhraðanettengingar.

[11:04]
Horfa

Erna Indriðadóttir (Sf):

Ég þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir svarið. Ég veit að áformin eru góð og stefnan hefur verið mörkuð, en það virðist svo lítið vera að gerast í málinu. Það eru mjög margir sem hafa áhyggjur af því víða um land, enda er löngu tímabært að gera eitthvað í þessu máli. Mér sýnist að menn hafi verið að ræða í að minnsta kosti ein tíu ár hvað þetta sé nauðsynlegt verkefni. Mörgum finnst biðin orðin ansi löng, enda er þetta farið að hamla starfsemi á landsbyggðinni þar sem nettengingar eru ekki nógu góðar. Fólk talar um að það geti ekki tekið þátt í fjarkennslu o.s.frv.

Það verður að setja meiri kraft í þetta verkefni. Ég hvet innanríkisráðherrann til allra góðra verka í því, því að ég veit að hún hefur góð áform. Fólk í dreifbýlinu þarf að fara að finna að það sé hluti af upplýsingabyltingunni og geti notfært sér þau tækifæri sem í henni felast.