145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[17:39]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hægt er að taka umræðu um þetta mál frá ýmsum sjónarhornum, og það er gott og blessað. Við þingmenn höfum auðvitað ólíkar skoðanir á málinu og nálgumst það frá ýmsum hliðum. Flutningsmenn frumvarpsins hafa nálgast það mikið frá þeirri hlið að þar sé um frelsisást og frelsi neytandans að ræða til að nálgast vöru á hvaða tíma sólarhrings sem er og líta á áfengi sem hverja aðra neysluvöru eins og kemur fram í frumvarpinu, tóbak og skotfæri, það er reyndar kannski ekki alveg nógu heppileg samlíking. Mér finnst hafa vantað rökstuðning fyrir því að þetta hafi ekki áhrif á áfengisneyslu og hafi ekki áhrif á vímuvarnabaráttuna eða að koma í veg fyrir að ungt fólk leiðist fyrr til neyslu áfengis. Og að þeirri miklu baráttu sem hefur verið og hefur skilað árangri í vímuefnaforvörnum undanfarin ár verði ekki hrint til baka með auknu aðgengi að áfengi, sem mundi verða í kjölfar þess ef áfengi fengist í öllum þeim verslunum sem eru með verslunarrekstur.

Í umræðunni áðan kom fram að deilt væri um það hvort félagi í BSRB eða einhver í öðru félagi rétti vöruna yfir borðið. Mér finnst alveg með ólíkindum að menn nálgist þessa umræðu um svo alvarlegt málefni á þeim nótum, enda snýst þetta ekki um það, að einkaréttur ríkisins til að selja áfengi hefur sýnt sig vera hömlun á því að hver og einn geti nálgast áfengi sem ekki hefur aldur til. ÁTVR hefur sýnt mikla ábyrgð, finnst mér, í því hlutverki að vera með einkarétt á sölu áfengis og staðið undir því hlutverki mætavel og hefur verið í samstarfi við lögreglu og aðra forvarnaaðila í þeim málum.

Mér finnst ekki hafa komið neitt fram hjá flutningsmönnum í þeim efnum að það sama verði ef þessi vara fari inn í almennar verslanir. Það hefur að minnsta kosti verið ansi holur hljómur í allri umræðu um hvaða áhrif þetta hefur á lýðheilsumál almennt í landinu, eins og það sé bara annar kapítuli út af fyrir sig og nægjanlegt sé að hækka prósentuhlutfallið sem fer í forvarnasjóð. Það eitt og sér leysir auðvitað engin mál.

Maður spyr sig út af hverju í ósköpunum verið er að fara þennan leiðangur, nema þá í nafni þess að verslunin geti haft hag af því og grætt. Mér hefur fundist það vera svona það þyngsta í umræðunni, í rökum þeirra sem hafa talað fyrir málinu að viðskiptafrelsi sé, frelsi einstaklingsins og frelsi neytanda. En ég tel þetta allt saman vera á kostnað forvarna og vímuvarna í landinu og þess mikla starfs sem ótal félagasamtök hafa unnið á undanförnum árum sem hafa sent til okkar þingmanna í raun og veru neyðarkall að spyrna við fæti og láta frumvarpið ekki ganga hér í gegn og verða að veruleika.

Mér fannst umræðan í Morgunútvarpinu vera ansi sláandi og góð þar sem Kári Stefánsson læknir sagði að allt sem við (Forseti hringir.) gætum gert til að koma í veg fyrir neyslu áfengis ungmenna fram að 20 ára aldri skipti sköpum fyrir framtíðina.