151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

vaxtahækkun bankanna.

[13:46]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Tölum um staðreyndir, segir hv. þingmaður. Við skulum þá tala um staðreyndir. Engin ríkisstjórn hefur lagt sig meira fram um að halda til haga þeim staðreyndum sem snúa að tekjuþróun í landinu og ég vil bara minna á að hægt er að nálgast þær staðreyndir til að mynda á vefnum tekjusagan.is. Ef hv. þingmaður myndi leggja sig eftir því (Gripið fram í.) þá væri svo sannarlega hægt að fara yfir það hvernig jöfnuður hefur þróast á Íslandi. Það vill nú svo til að tekjujöfnuður á Íslandi er mestur meðal OECD-ríkja, bara svo ég haldi staðreyndum til haga, sem hv. þingmaður ræðir hér.

Þegar hv. þingmaður fer svo yfir peningastefnuna vil ég líka halda þeim staðreyndum til haga að Seðlabankinn sér um hana, sjálfstæði hans er tryggt í lögum, sem betur fer er það þannig, og það hefur verið sérstakt kappsmál Alþingis að tryggja það sjálfstæði. (Gripið fram í.) Þetta eru þeir þrír armar sem þurfa að vinna saman. Ef hv. þingmaður kvartar undan framkvæmd peningastefnunnar þá vil ég halda til haga einmitt þeirri staðreynd að vextir hafa ekki verið lægri á lýðveldistímanum og það er svo sannarlega mjög mikilvægt hagsmunamál fyrir almenning. (Gripið fram í.) Verið er að beita tækjum peningastefnunnar sömuleiðis til að tryggja gengi krónunnar (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) þannig að ég held að það sé mikilvægt að við byrjum á staðreyndum (Forseti hringir.) áður en við förum í stóryrðin hér.