151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

vinnumarkaðsmál.

[13:47]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Þegar launatengda tímabilið til atvinnuleysisbóta var lengt úr þremur mánuðum í sex í byrjun september ákváðu stjórnarflokkarnir að skilja þau eftir sem komin voru á grunnatvinnuleysisbætur í ágúst. Í meðferð þess frumvarps bentum við í Samfylkingunni ítrekað á þá mismunun. Þau sem komin voru á grunnatvinnuleysisbætur í ágúst fengu ekki sex mánaða tekjutengt tímabil. Og hvað þýðir það? Jú, það er mögulegt að fá 456.000 kr. á mánuði á tekjutengda tímabilinu en rúmar 289.000 kr. þegar því sleppir. Munurinn er rétt um 166.000 kr. á mánuði, eða samtals um hálf milljón yfir þrjá mánuði.

Það var ekki fyrr en í byrjun október að hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra sögðust vilja leiðrétta þetta. Fólkið hefði lent á milli skips og bryggju, var sagt. Og nú, um miðjan nóvember, er búið að dreifa frumvarpi á Alþingi sem á að vera eins konar leiðrétting á óréttlætinu frá því í september. En leiðréttingin felst í því að skilja í staðinn öll þau eftir sem voru atvinnulaus í febrúar. Í febrúar var 5% atvinnuleysi á landinu öllu og komið í 9% á Suðurnesjum. Í febrúar voru rúmir 10.000 einstaklingar atvinnulausir á landinu. Er ekki alveg öruggt að allir í hæstv. ríkisstjórn átti sig á því að fólkið sem var atvinnulaust í febrúar fær enga vinnu vegna þess að það er enga vinnu að fá? Það er ekki betur sett en hinir. Það er verr sett. Það er nefnilega atvinnukreppa vegna heimsfaraldurs og atvinnuleysi á landinu öllu er komið í 11,1% og í 21,1% á Suðurnesjum.

Ég spyr því hæstv. félags- og barnamálaráðherra hvers vegna hæstv. ráðherra og ríkisstjórnin velja að skilja þá eftir sem standa allra verst. Hefði ekki verið eðlilegast og réttlátt að öll þau sem voru atvinnulaus í ágúst fengju sex mánaða tekjutengt tímabil?