151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

búvörulög.

224. mál
[14:30]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég kem hér upp til að ræða 224. mál, frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum, nr. 99/1993, um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða, og sömuleiðis fyrirliggjandi nefndarálit með breytingartillögu frá atvinnuveganefnd sem ég er á sem fulltrúi í nefndinni. Mig langaði að ræða þetta mál lítillega. Þó að ég styðji nefndarálitið og málið sem slíkt, enda verið að stíga skref í rétta átt, tel ég að ríkisvaldið hefði átt að ganga enn lengra og horfa á kerfið heildrænt og reyna að ná fram fleiri og stærri skrefum í átt að því að byggja upp framleiðslu garðyrkjuafurða á mun stærri skala en við höfum séð hingað til. En til að gera það þurfum við, eins og ég nefndi, að horfa á kerfið í heild og ákveða hvernig við ætlum að ná fram öflugri innlendri garðyrkjuframleiðslu og aukinni áframvinnslu í mun meira mæli.

Herra forseti. Til þess þurfum við líka að horfa til þess að auka samvinnu þekkingargeirans og framleiðenda, stuðla að því t.d. að tengja saman framleiðendur og sérfræðinga í garðyrkju, í matvælafræði og verkfræði. Ef við horfum til þess hvernig vinnsla í sjávarútvegi á Íslandi hefur tekið stórstígum framförum á síðustu áratugum þá er það að miklu leyti því magnaða hugviti sem býr á Íslandi að þakka, þar sem einstaklingar með reynslu úr iðnaðinum unnu með einstaklingum með verksvit og verkfræðiþekkingu að því að búa til skilvirkar vinnslulínur. Sú vinna hefur skilað því að við eigum í dag glæsileg fyrirtæki, eins og Marel og 3X Skagann og Frost og fleiri fyrirtæki, sem nú selja vinnslulausnir sínar til matvælaframleiðslu um allan heim.

Þá má ekki gleyma því, herra forseti, að þessi þekkingarvinnsla hefur orðið til þess að við hendum nánast engum hluta fisksins lengur heldur er hver einasta arða unnin og nýtt til þess að búa til verðmæti. Slíkt samstarf og slíka þekkingu þurfum við til þess að byggja upp í tengslum við ræktun og vinnslu garðyrkjuafurða hér á landi. Við höfum allt annað sem þarf. Við höfum næga orku, við höfum gnótt af hita og við höfum þekkingu á því að rækta gróðurafurðir.

Við gætum svo auðveldlega ræktað mun meira en við gerum í dag, og það er vilji til þess. Við gætum líka verið að framleiða mun fjölbreyttari afurðir en við höfum verið að gera hingað til. Með því að skala framleiðsluna upp og gera hana fjölbreyttari gætum við að miklu leyti staðið undir okkar eigin þörf fyrir garðyrkjuafurðir og jafnvel, ef við leyfum okkur að horfa björtum augum til framtíðar, framleitt vörur til útflutnings. Það væri þó strax stórt skref að ná að rækta fyrir okkar eigin not og myndi auka bæði þjóðaröryggi og minnka kolefnisfótspor þjóðarinnar sem er ekki síst mikilvægt.

Herra forseti. Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands framleiðum við í dag aðeins u.þ.b. 44% af því sem við neytum af tómötum, um 11% af því sem við neytum af papriku og blómkáli, 29% af hvítkáli, 16% af kínakáli, 17% af spergilkáli, 24% af salati, 63% af sveppum og 48% af gulrótum. Og þrátt fyrir frægan skort á gúrkum nýverið náum við að framleiða u.þ.b. 97% af því sem við neytum af gúrkum hér á landi.

Herra forseti. Þetta eru aðeins þær allra helstu tegundir sem við framleiðum hér á landi og því miður er samantekt Hagstofunnar ekki nákvæmari en þetta. Það er eitthvað sem ég held að við þyrftum að skoða alvarlega til þess að fá betri mynd af því hvað við erum að framleiða hér á landi og hvernig við nýtum það. Við gætum svo auðveldlega verið að framleiða meira og gætum jafnvel, eins og ég nefndi áðan, náð að rækta meira en við þurfum og gætum nýtt það til útflutnings.

En það eru fleiri þættir sem við þurfum að skoða í því samhengi, t.d. þurfum við að búa til „brand“ — afsakið slettuna, herra forseti — eða merkingu fyrir vörur frá Íslandi sem tengir íslenska matvöru við gæði og sjálfbærni, sem er sannarlega það sem íslenskar vörur standa fyrir, og nýta það til markaðssetningar innan lands og utan. Ég hvet hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til að ganga einfaldlega í það mál í samvinnu við öll matvælasamtök á Íslandi. Þannig myndum við einfalda íslenskum neytendum að átta sig á hvaða matvara í verslunum er íslensk og vonandi ná að búa til öfluga markaðssetningu fyrir þá íslensku matvöru sem seld er erlendis í samkeppni við önnur lönd sem hafa lagt mikið í slíka markaðssetningu.

Herra forseti. Það eru vissulega jákvæð skref stigin í því máli sem við höfum hér til umfjöllunar, en eftir því sem kom fram í vinnu nefndarinnar eigum við Covid það að þakka. Áður en Covid skall á stóð víst ekki til að gera miklar breytingar á samningnum við garðyrkjubændur. Enn skortir þó nokkuð á að almennilegur hvati til nýsköpunar sé í kerfinu þó að það sé vissulega margt. Við þurfum líka að velta fyrir okkur hvernig kerfið þarf að vera, hvernig kerfi við viljum hafa og hvernig það þarf að vera úr garði gert til þess að gera framleiðsluna samkeppnishæfa og það á ekki eingöngu við um þær tegundir sem ríkið ákveður að niðurgreiða.

Til þess þurfum við einnig að líta til raforkukostnaðarins, þ.e. dreifikostnaðar raforku, og jafna hann að fullu milli þéttbýlis og dreifbýlis. Í því samhengi er ágætt að setja upp byggðagleraugun, og fagna ég því að hæstv. byggðamálaráðherra er hér í salnum, en í dag er beinlínis hvati til þess að ýta gróðurhúsauppbyggingunni í átt til stærri byggða þar sem flutningskostnaðurinn er lægri. Þannig ætti frekar að vera hvati í kerfinu til uppbyggingar á þeim svæðum sem búa yfir orku til að nýta hana en ekki öfugt. Sömuleiðis er ómögulegt, herra forseti, að kerfið sé þannig uppbyggt að niðurgreiðsla á raforkukostnaði gróðurhúsanna sé í einum potti þannig að ef einhver nýr ákveður að koma inn á markaðinn, eða ef einhverjir innan kerfisins ákveða að stækka við sig, þá minnki framlögin til hinna.

Herra forseti. Þó að ég fagni þeim skrefum sem stigin eru í málinu hér, og muni að sjálfsögðu greiða atkvæði með því, þá þurfum við að taka málið upp aftur sem fyrst og stíga stærri og ákveðnari skref í uppbyggingu í garðyrkju á Íslandi. Við þurfum að styðja með markvissari hætti við garðyrkju, grænmetisframleiðslu og nýsköpun í matvælaframleiðslu. Þangað vill Samfylkingin í það minnsta stefna.