151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[16:48]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra hjartanlega fyrir svarið. Finnska leiðin, já, ég er alveg gjörsamlega sammála því að ef við gætum t.d. gert hana bara að okkar og fetað stigu Finna hvað menntastefnu varðar værum við sannarlega á réttri leið og góðri leið. En þegar við tölum um snemmtæka íhlutun og annað slíkt var ég miklu meira að hugsa um, fyrst ekki er verið að draga börnin okkar í dilka inni í kennslustofunum og allir hafðir saman í blönduðum bekkjum og allt svoleiðis, hvað með litla einstaklinginn þegar hann kemur sex ára í skólann? Hefur ekki komið sú hugmynd að kenna bara þessi fög, engin önnur fög, þar til hægt væri að meta það svo að viðkomandi væri orðinn læs, að hann væri jafnvel farinn að draga til stafs og vera bara með framsögu og einhverja gleði og veita litla einstaklingnum þá hamingju sem hæstv. menntamálaráðherra kemur hér inn á, að börnin séu hamingjusöm og líði vel í skólanum?

Ég sé t.d. að tíu ára börn eru fá alls konar aukafög og aukagreinar sem hugsanlega ættu að koma inn, a.m.k. að mínu mati og að mínu viti, einhverjum árum síðar þegar viðkomandi hefur eitthvert gagn af því vegna þess að hann horfir bara á bækurnar. Börn eru ekkert öðruvísi en fullorðið fólk. Ef við sjáum ekkert annað en brekku fyllumst við vanmætti og vanlíðan og hlutirnir verða miklu meira yfirþyrmandi en þeir þurfa í raun að vera.

Þess vegna spyr ég, og mig langar að fá hreinskilið svar, hvort hæstv. menntamálaráðherra sjái ekki tækifæri í því, eins og hún vísar einmitt til núna með litlu krakkana strax á leikskólastigi, að fara strax að innræta þeim þennan hug gagnvart skólanum sínum, að gefa þeim kost á því þegar þau koma inn í grunnskólann (Forseti hringir.) að vera með þessi fáu fög þar til þau eru orðin læs og bæta svo á þau fleiri verkefnum.