151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

atvinnuleysistryggingar.

300. mál
[18:54]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra talar um að það þurfi að afgreiða þetta mál með hraði vegna þess að það sé svo mikilvægt. Ég vil taka undir að það er sannarlega mikilvægt þegar fólk hefur misst vinnuna, stendur frammi fyrir atvinnukreppu, enga vinnu er að fá og efnahagur heimilanna hefur hrunið hjá þeim sem misst hafa vinnuna.

Ég átti orðastað við hæstv. ráðherra hér fyrr í dag og þá spurði ég hvort ekki hefði verið sanngjarnara og réttlátara að allir sem voru atvinnulausir í ágúst hefðu fengið sex mánaða tekjutengt tímabil. Ég fékk ekki svör við því og ég vil spyrja hæstv. ráðherra og biðja hann um að svara mjög skýrt: Hefði ekki verið sanngjarnt og réttlátt að allir sem voru komnir á grunnatvinnuleysisbætur í ágúst, eða bara allir atvinnulausir, fengju sex mánaða tekjutengt tímabil? Hvers vegna vill hæstv. ráðherra bara láta 10.000 manns, eða helminginn af þeim sem voru atvinnulausir í ágúst, njóta tekjutengda tímabilsins í sex mánuði en skilja hinn helminginn út undan? Hvers vegna er það? Er það af því að hæstv. ráðherra telur að þeir sem voru atvinnulausir í febrúar standi eitthvað betur, að heimili þeirra standi sterkar efnahagslega eða að þeir séu í meiri færum til að fá vinnu eða redda sér með öðrum hætti í atvinnukreppu? Hver er ástæðan fyrir því að þessi hópur er skilinn eftir?