151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

tekjuskattur.

86. mál
[21:17]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er nákvæmlega sama fjármagn sem fer annaðhvort til þess sem kaupir þjónustuna eða þess sem selur þjónustuna. Það sem ég er að segja er að sá sem selur þjónustuna, sá sem vinnur verkið, hann eða hún skilar öllum þeim gögnum sem þarf til þess að starfsemin sé ekki svört og fái fyrir það nákvæmlega sömu umbun og væri hinum megin dæmisins í formi skattafsláttar. Þannig að fjármagnið er nákvæmlega það sama. Annaðhvort er afsláttur af sköttum, 150.000 kr. á mánuði til þess sem kaupir þjónustuna, eða 150.000 kr. á mánuði til þess sem selur þjónustuna. Það er nákvæmlega sami peningur nema það er jafnvel ákveðin hagvaxtaraukandi aðgerð, með innspýtingu þeim megin eða kæmi væntanlega út á jöfnu, kaupin eru á lægra verði af því að þau skila sér þegar viðkomandi seljandi skilar inn öllum þeim gögnum sem þarf til að fá viðbótina sem vantar. Það er hvati til að skila gögnum og gera starfsemina ekki svarta með því að fá nákvæmlega sama pening og hinn aðilinn fær sem kaupir þjónustuna.

Venjulega er það þannig að sá sem selur þjónustuna, verktaki, múrari sem kemur og klárar allt sitt, skilar nótum og svoleiðis. Hann ætti að vera sá sem skilar inn öllum sköttum og gjöldum og upplýsingum um allt hvað verkið varðar, myndi maður halda.