153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

tekjuskipting ríkis og sveitarfélaga.

[10:32]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Í óundirbúnum fyrirspurnatíma á mánudaginn ræddi ég við hæstv. forsætisráðherra um óréttláta tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga sem kemur ekki síst fram í þjónustu við fatlað fólk. Sveitarfélögin telja að það vanti 9–13 milljarða inn í grunninn frá ríkinu þannig að hann standi undir sér. Forsætisráðherra kvaðst hafa mjög mikinn skilning á vanda sveitarfélaga. Við ræddum líka áhugaverða hugmynd innviðaráðherra, sem hann kynnti á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga, um 5–6 milljarða innspýtingu inn í málaflokkinn. Þetta átti að gerast með þeim hætti að hámarksútsvarsprósenta sveitarfélaga hækkaði um 0,26 prósentustig en tekjuskattur, sem ríkið innheimtir, lækkaði á móti sem því næmi.

Hæstv. forsætisráðherra lét þó á sér heyra að hugmyndin hafi ekki verið rædd og alls ekki í ríkisstjórn. Nú er samt sem áður hugmyndin fædd hjá einum af oddvitum ríkisstjórnarinnar og sveitarstjórnarfólk er mjög áhugasamt um að vita hversu raunhæft er að hún verði að veruleika og muni jafnvel birtast í fjárlögum milli umferða, sem er auðvitað forsenda þess að hún komi að einhverju gagni fyrir sveitarfélögin á næsta ári.

Því spyr ég hæstv. fjármálaráðherra einfaldlega hvað honum finnist um hugmynd innviðaráðherra og hvort líklegt sé að hún verði að veruleika á næstunni. Ef ráðherra hugnast hugmyndin er líka nauðsynlegt að spyrja í framhaldinu, þar sem augljóst er að þessi útfærsla innviðaráðherra myndi lækka tekjur ríkissjóðs: Sér hæstv. fjármálaráðherra þá fyrir sér að tekjumissirinn yrði bættur upp með nýjum tekjustofnum, sér hann fyrir sér að skila ríkissjóði með meiri halla en áður var gert ráð fyrir eða verða útgjöld skorin niður? Og þá væri gott að vita hvaða útgjöld það yrðu.