153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

tekjuskipting ríkis og sveitarfélaga.

[10:37]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Nei, það er reyndar rangt, ég verð að leiðrétta það. Þetta er ekki kostnaðarmat fjármálaráðuneytisins. Þetta er kostnaðarmat sem var unnið í samvinnu sveitarfélaganna, Sambands íslenskra sveitarfélaga, og félagsmálaráðuneytisins á sínum tíma, það voru tvær nefndir sem funduðu 100 sinnum og skiluðu 100 blaðsíðna skýrslu um málið. En látum það nú vera. Ég er sleginn yfir því hversu ofboðslegt vanmat hefur verið hér og svo auðvitað hlýtur þetta að kalla á spurningar um það hvort kostnaðurinn hafi orðið allt of mikill og umfram tilefni. Það hljóta að vakna spurningar um slíkt. Þegar spurt er um það hverju sveitarfélögin eigi að gera ráð fyrir varðandi næsta ár þá var ég að segja það hér að hugmyndir sem hafa verið reifaðar voru smíðaðar í fjármálaráðuneytinu og ræddar við innviðaráðherra sem hefur síðan gert þær opinberar þannig að það er ekki við öðru að búast en að við viljum vinna áfram með þær og taka formlega ákvörðun hérna við meðhöndlun fjárlaga og Alþingi mun síðan á endanum eiga síðasta orðið.