153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

frumvarp til útlendingalaga.

[10:38]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Þótt málið sem ég spyr hér um varði mjög fjármál ríkissjóðs þá spyr ég hæstv. ráðherra einnig sem formann Sjálfstæðisflokksins, formann stærsta flokks þessarar ríkisstjórnar, því að mjög mikil óvissa hefur ríkt um hvert þessi stjórn stefnir í útlendingamálum. Nú heyrum við af — ekki óeiningu, það er talað um sérstaka einingu, en þó tafir í þingflokki Sjálfstæðismanna vegna útlendingamáls hæstv. dómsmálaráðherra. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Hvers er að vænta frá Sjálfstæðismönnum hvað þetta varðar? Mun hæstv. dómsmálaráðherra fá stuðning við að laga útlendingafrumvarp sitt, bæta það að því marki að það hafi einhver teljandi áhrif? Og þarf ekki meira til? Verður hæstv. fjármálaráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins, tilbúinn að styðja hæstv. dómsmálaráðherra í því að koma með viðbótarfrumvörp til að takast á við ástandið sem nú blasir við, það stjórnlausa ástand sem hæstv. dómsmálaráðherra hefur lýst sem svo? Sá ráðherra og hæstv. fjármálaráðherra hafa báðir viðurkennt að þetta sé ekki viðunandi ástand og sé afleiðing af þeirri stefnu sem hér hefur verið rekin. Aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lítið tjáð sig um þetta, þó kannski einn eða tveir aðeins á skjön við það sem hæstv. ráðherrar hafa sagt. En hver er stefnan? Hvers er að vænta frá Sjálfstæðisflokknum í þessu máli? Það er ekki að ástæðulausu að ég spyr því að það er ekkert mjög langt liðið síðan Sjálfstæðisflokkurinn tók þátt í því og beitti afli sínu til að koma í gegn frumvarpi sem var til þess fallið að ýta undir ásóknina, seglana, eins og hæstv. dómsmálaráðherra kallar það, sem eru á Íslandi. Má vænta þess að flokkurinn taki nú af skarið og nái stjórn á málaflokknum?