153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

frumvarp til útlendingalaga.

[10:40]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Fyrst vil ég segja að ég tek ekki undir þá túlkun hv. þingmanns á tiltölulega nýlegum lagabreytingum að þær hafi orðið til þess að gera Ísland að sérstökum segli í þessum málaflokki, ég er ekki sammála því. Ég vil hins vegar taka fram að okkar áherslur snúast allar um að verja tilgang kerfisins, hælisleitendakerfisins. Við viljum að kerfið gagnist í þeim tilgangi sem það er smíðað en sé ekki þannig að fleiri sæki í það, sem veldur okkur kostnaði og umstangi, og leiti leiða til að komast inn í hælisleitendakerfið þegar þeir eru í raun og veru að leita að stað til að búa á og bæta lífskjör sín til lengri tíma. Við erum sömuleiðis með mjög miklar áhyggjur af skilaboðum sem löggæsluyfirvöld í landinu senda okkur um að vegabréf frá Venesúela gangi kaupum og sölum og þeim sé síðan framvísað hér eins og annars staðar og að þeir sem komi með slík vegabréf standi í skuld við þá sem útvega slík vegabréf og þurfi á komandi árum að finna leiðir til að fjármagna þá skuld, að glæpagengi séu að senda börn á ferð til að finna þá staði þar sem börn njóta sérstakrar verndar umfram aðra. Okkar hugur er hjá slíkum börnum sem verða að einhvers konar verkfæri í höndum glæpagengja. Við þurfum að fjármagna átak til að takast á við slíka aðila þannig að verndarkerfið okkar gagnist þeim sem það er raunverulega smíðað fyrir, sem er fólk sem þarf að leggja á flótta undan ástandinu heima fyrir og leitar skjóls hér og annars staðar í Evrópu og á skilið að fá vernd. Kostnaðurinn einn og sér er síðan annað mál. Við getum ekki ætlast til þess að vera undanskilin þeirri þróun sem er alþjóðleg. Það er við því að búast að það verði meiri ásókn í það að koma til Íslands eins og er að gerast annars staðar. Þetta er viðkvæmur málaflokkur sem þarf að vera hægt að ræða um þannig að staðreyndir þoli dagsins ljós en séu ekki málaðar upp sem einhver hræðsluáróður.