153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

rekstrarumhverfi fjölmiðla.

[10:58]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegur forseti. Það er óþarfi að fjölyrða mikið um stöðu fjölmiðla á Íslandi. Staðan er dökk eins og við þekkjum. Það ætti heldur ekki að þurfa að fjölyrða mikið um mikilvægi fjölmiðla á Íslandi og í öðrum löndum. Í Danmörku og Noregi er litið svo á að fjölmiðlar séu hryggjarstykkið í lýðræðinu og þar er engin sérstök umræða um það hvort styrkja eigi fjölmiðla eða styðja, heldur meira hvernig. Það þarf að taka rekstrarumhverfi fjölmiðla á Íslandi til heildstæðrar endurskoðunar til að skapa umhverfi sem getur stutt við frjálsa fjölmiðla til framtíðar. Slík heildarendurskoðun hefur ekki verið sett af stað en hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra hefur þó sett á stuðningskerfi fyrir einkarekna fjölmiðla sem ríkisstjórnin gat ekki samþykkt nema tímabundið til næstu áramóta. Þannig fór forgörðum von um varanlega og heildstæða lausn sem bætir á sama tíma rekstrargrundvöll og sjálfstæði fjölmiðla.

Nú berst tilkynning frá hæstv. ráðherra um að hún hafi birt í samráðsgátt tillögu að framlengingu fyrirkomulagsins. Þar kemur fram að framlengingin eigi að gilda í tvö ár og að því loknu eigi að taka við fimm ára fyrirkomulag. Hæstv. ráðherra hefur þegar verið ráðherra málaflokksins í fimm ár og þegar framlengingin hefur runnið sitt skeið hefur ráðherra setið í sjö ár án þess að varanleg lausn sé komin. Það liggur fyrir að skýringin á þessu er ekkert endilega viljaleysi hæstv. ráðherra heldur ekki síður fyrirstaða innan Sjálfstæðisflokksins og er þetta því enn eitt dæmið um mál þar sem stjórnarflokkarnir geta ekki komið sér saman um lausn.

Ég og þingflokkur Viðreisnar erum hlynnt því að styðja við fjölmiðla enda eru þeir hornsteinn lýðræðisins, en samhliða þarf að huga að erlendu miðlunum, yfirburðastöðu RÚV og tryggja heilbrigt og eðlilegt starfs- og rekstrarumhverfi. Annað er til þess fallið að skapa óheilbrigðara umhverfi en var fyrir, sér í lagi þegar ráðherra hefur stöðugt í hendi sér að afnema stuðninginn og skiptir þá í sjálfu sér ekki máli hver ráðherrann er.

Í sérstakri umræðu í mars sagði hæstv. ráðherra að vinna væri að fara af stað á vegum fjármálaráðherra um að breyta skattalegu umhverfi og jafna stöðuna. Þær niðurstöður myndi hún kynna, en ekkert hefur bólað á þeim. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvernig þeirri vinnu miðar og hvernig hún hugsar sér fyrirkomulagið hvað varðar fjölmiðla til framtíðar.