Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

atvinnuréttindi útlendinga.

28. mál
[11:59]
Horfa

Flm. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P) (andsvar):

Forseti. Ég er náttúrlega í þeirri erfiðu stöðu hérna að ég hef ekki séð frumvarpið sem þingflokkur Vinstri grænna afgreiddi úr sínum þingflokki. Það er áhugavert að hv. þingmaður skuli viðurkenna það nokkuð skýrt að hún sé sammála því sem lagt er til í því frumvarpi. Ég er mjög spennt að sjá nýjustu útgáfuna, fimmtu útgáfuna af þessu frumvarpi, en hingað til hafa hugmyndirnar í því verið mjög slæmar. Þær snúast fyrst og fremst um að koma í veg fyrir það að fólk sem hefur fengið stöðu flóttamanns, t.d. í Grikklandi, þar á meðal börn, eigi nokkra möguleika á að vera hér á landi þótt það hafi tengsl við landið, þótt um sé að ræða börn, þótt það sé um að ræða fólk með sérþarfir og annað. Það á að taka þá heimild út úr lögunum. Hitt varðaði sviptingu þjónustu og annað, takmörkun á þegar mjög takmörkuðum möguleikum fólks til að fá mál sitt endurskoðað ef það sækir um aftur. Nú hef ég ekki séð þetta frumvarp, eins og ég segi, og hlakka til og vona að það hafi verið gerðar miklar breytingar. En mig langar, í ljósi þess fyrirvara sem mér fannst þingmaðurinn setja svolítið við þetta í andsvari sínu áðan, að spyrja hv. þingmann hvort hún styðji frumvarpið eins og það var samþykkt út úr þingflokki eða hvort hún telji þörf á að gera tilteknar breytingar á því og treysti á að nefndin geri þær breytingar.