Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

atvinnuréttindi útlendinga.

28. mál
[12:06]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Einfalda svarið við þessu er bara: Nei. Þau sem koma hingað og segja: Ég þarf vernd vegna mannúðarsjónarmiða, er alveg sama um fólk sem kemur hingað á einhverjum öðrum forsendum, sem kemur hingað sem flóttafólk. Þau eru út frá þessu sjálfstæða lagagreinarákvæði að segja: Við þurfum vernd. Eins og hv. þingmaður fór yfir í framsöguræðu sinni felur það í sér ákveðin réttindi, sem er bara mismunurinn á milli þeirra leiða sem þú kemur hingað eftir. Við eigum ekkert að þurfa að segja: Af því að þú ert hérna vegna mannúðarsjónarmiða þá færð þú ekki sömu réttindi og einhver annar sem kemur hingað sem flóttamaður. Það er ákvörðun okkar að gera þessa mismunun. Og það að setja það í einhvers konar heildarsamhengisröksemdafærslu gengur bara ekki upp gagnvart þeim aðila sem segir: Ég er hérna vegna mannúðarsjónarmiða og mér finnst eðlilegt að ef þið teljið svo, íslensk stjórnvöld, að það sé rétt hjá mér — og það er rosalegt ferli sem viðkomandi fer í gegnum til að íslensk stjórnvöld geti sannfært sig um að svo sé. Það þýðir bara: Já, þá verður þú að vera hérna og hanga og gera ekki neitt, þú getur ekki leitað þér að vinnu, við borgum þér meðlag o.s.frv.

Hv. þingmaður segir bara að það fari í gegnum þingið sem meiri hluti er fyrir hverju sinni. Samkvæmt minni reynslu er það einfaldlega ekki rétt. Það er ákveðin gíslataka sem á sér alltaf stað hérna. (BHar: Ha?) Já, það er þannig þótt hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir verði hissa á því. [Hlátur í þingsal] Þess vegna er stundum ákveðinn minni hluti hérna innan þingsins, innan ríkisstjórnarinnar sérstaklega, sem segir: Þetta mál má ekki fara í gegn. Þetta mál sem við erum að tala um hérna má ekki fara í gegn af því að einn flokkur innan ríkisstjórnarinnar segir nei þrátt fyrir að meiri hluti þingsins vilji það í rauninni.