Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

atvinnuréttindi útlendinga.

28. mál
[12:10]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og þakka flutningsmanni málsins, Arndísi Önnu Kristínar Gunnarsdóttur, fyrir framsöguna. Ég er meðflutningsmaður á þessu máli og ætla í fáeinum orðum að útskýra hvers vegna ég styð það. Það var svolítið áhugavert að heyra framsöguna hérna áðan. Þetta getur verið mikill frumskógur, þessar leyfisveitingar allar og hvernig þetta allt saman virkar hérna í kerfinu hjá okkur. Ég ætla að leyfa mér að viðra það sjónarmið að mínar forsendur á bak við þetta eru einfaldlega þær að því fleiri sem hingað leita, til Íslands, og fá að vinna, ef þeir fá á annað borð að dvelja hérna, því betra. Ég sé ekki hver tapar á því. Ég á voðalega erfitt með að átta mig á því hvers vegna við þurfum að setja einhverjar svona girðingar upp og fagna þar af leiðandi allri viðleitni í þá átt. Þetta er útskýrt ágætlega í greinargerðinni.

„Núverandi fyrirkomulag leiðir til þess að hér á landi dvelur talsverður fjöldi einstaklinga,“ reyndar talsvert stór fjöldi einstaklinga, „sem hefur fengið heimild til dvalar af framangreindum ástæðum, án þess að hafa heimild til þess að sjá fyrir sér með atvinnuþátttöku. Atvinnuleyfisumsóknir einstaklinga með dvalarleyfi af þessu tagi eru jafnan samþykktar hjá Vinnumálastofnun, en ferlið felur engu að síður í sér hindranir sem takmarka aðgengi þeirra að vinnumarkaði.“

Þetta finnst mér brýnt að losa um og styð alla viðleitni í þá átt, eins og ég var að nefna.

Ég ætla líka að fá að nota tækifærið hér úr því að við erum að ræða þessi mál að nefna að mér finnst umræða um það fólk sem hingað leitar, sama hverjar aðstæðurnar eru eða bakgrunnurinn er, vera oft á miklum villigötum. Allur hópurinn er settur hjá mörgum í eitt mengi þegar umræðan er í gangi og gjarnan er þeim hópi att saman eða gegn öðrum hópum í samfélaginu. Það er verið að tala um þennan viðkvæma hóp sem einhvers konar afætur á samfélaginu og að það að gera vel við og taka vel utan um og hlúa vel að þessum hópi og gera honum kleift að bjarga sér hérna á landinu komi á einhvern hátt í veg fyrir það að við getum gert vel við aðra hópa, t.d. eldri borgara og öryrkja. Þessu er oft sagt blandað saman. Við þekkjum auðvitað þá umræðu mjög vel: Það fer svo mikill kostnaður í þennan hóp að þeim fjármunum væri betur varið t.d. í eldri borgara eða öryrkja, svo ég nefni það nú sem oftast er nefnt. Mér er, eins og held ég öllum, mjög annt um að kjör þeirra eldri borgara og öryrkja sem standa höllum fæti verði bætt en við getum ekkert alltaf talaði um einhvern einn afmarkaðan lið í heildarútgjöldum ríkisins sem einu ástæðuna fyrir því að það er ekki gert. Við getum allt eins sagt að við eigum ekki að eyða svona miklum peningum í landbúnaðarkerfið, styrktarkerfi landbúnaðarins, vegna þess að þeim peningum væri betur varið í það að styðja við einhverja aðra hópa. Mér finnst þessi umræða allt of oft einhvern veginn yfirtaka allt og kannski er pínulítil lausn á því, eða a.m.k. gæti það rétt hallann á umræðunni aðeins af, að þeir sem hingað leita, sama hverjar forsendurnar eru, fái með tiltölulega auðveldum hætti að sjá fyrir sér á meðan þeir dvelja hér. Þetta er auðvitað líka bara spurning um mannlega reisn. Þetta byggir líka undir þá skoðun mína að þeir sem hingað koma hér vilji sjá fyrir sér. Menn koma ekki hingað, a.m.k. ekki nema þá í einhverjum undantekningartilfellum, til að leggjast upp á eitthvert kerfi. Við erum allt of föst í þeirri hugsun að svoleiðis hljóti það að vera. Við þurfum einhvern veginn að komast út úr því.

Svo gæti ég líka haldið langa ræðu um það hvernig ríki Evrópu leysa þessi mál sín á milli með því að búa til girðingar og vonast til þess að vandinn færist til einhvers annars lands. Það er auðvitað ekki heldur rétt nálgun á málin og við eigum eftir að lenda á miklum villigötum með þá leið og enda einhvers staðar úti í skurði þegar fjöldi fólks sem er að flýja einhvers konar aðstæður í heimalöndum sínum á bara eftir að vaxa eftir því sem árunum og áratugunum vindur fram.

Þetta er kannski hluti af þeirri skýringu sem er á bak við það að ég styð þetta mál heils hugar. Að öðru leyti vísa ég bara í þann rökstuðning sem hér kom fram hjá framsögumanni.

En af því að málið fór aðeins inn í það að tala um það frumvarp sem þingheimur og þjóðin eru búin að vera að bíða eftir frá dómsmálaráðherra, og ég ætla að leyfa mér að segja þann sirkus sem hefur verið í þeirri atburðarás, þá verð ég eiginlega að fá að leggja orð í belg og sérstaklega með vísan í atburðarásina eins og hún var í gær. Það var eiginlega alveg með talsverðum ólíkindum að fylgjast með því, hafandi ekki mikla vitneskju um það hvernig mál eru afgreidd í þingflokkum stjórnarflokkanna. Það kemur sem sagt frétt um það að mál dómsmálaráðherra, þetta téða mál sem allir hafa verið að ræða um en enginn hefur séð nákvæmlega í endanlegri mynd, hafi flogið út úr þingflokki VG og Framsóknar, en að það sitji fast í þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Svo kemur fram í sömu frétt í viðtali við þingflokksformann Sjálfstæðisflokksins að það standi ekki hnífurinn á milli þingflokksins og dómsmálaráðherra í málinu. Örstuttu síðar kom önnur frétt þar sem kemur fram að þingflokkurinn, sem sagður er styðja dómsmálaráðherra í einu og öllu, hafi afgreitt málið út með fyrirvörum. Og í enn einu viðtalinu, í viðtali við ráðherrann, kom fram að málið væri enn í vinnslu í ráðuneytinu. Ég átta mig ekki alveg á því hvort þetta er alvanalegt hér á þingi af því að ég er ekki búinn að sitja hérna lengi. En ég á svolítið erfitt með að átta mig á þessari atburðarás og mér finnst hún eiginlega bara pínulítið lýsandi fyrir það hversu mikið vandræðamál þetta er fyrir ríkisstjórnina, hversu erfitt þessi ríkisstjórn á með að ná einhverri samstöðu, breiðri samstöðu um það hvert skuli stefna í þessum málaflokkum. Og hverjir eru það sem tapa á því? Það er nákvæmlega fólkið sem er m.a. undir í því máli sem hér er verið að mæla fyrir og bara almennt allir þeir sem hingað koma til að sækjast eftir því að dvelja hér vegna þess að þeir geta ekki gert það með reisn eða sómasamlegum hætti í heimalandi sínu af margvíslegum ástæðum.

Ég styð þetta mál auðvitað heils hugar og árétta það að því auðveldara sem fólki er gert kleift að vinna á meðan það dvelur hér, því betra fyrir alla, bæði fyrir fólkið, mannlega reisn þess og líka fyrir samfélagið okkar í heild sinni.