153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

atvinnuréttindi útlendinga.

28. mál
[12:32]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að við séum komin í ákveðinn hring hérna vegna þess að það á eiginlega ekki að fá að ræða þetta frumvarp af því að það er að finna í þessu útlendingafrumvarpi en samt eigum við ekki að ræða útlendingafrumvarpið vegna þess að við erum að ræða hitt frumvarpið sem á eiginlega ekki að ræða fyrr en úitlendingafrumvarpið er komið. Við erum komin með þetta frumvarp hér fyrir framan okkur. Þetta frumvarp leysir ákveðinn vanda sem sér í lagi flóttafólk frá Úkraínu býr við, sem er að það færi ekki sjálfkrafa atvinnuleyfi þrátt fyrir að allir séu sammála um að það eigi rétt á vernd og það eigi rétt á að fá að setjast hér að, sér í lagi á meðan stríðið í Úkraínu er í gangi.

Ég veit að hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir styður Úkraínu og hún styður flóttafólk frá Úkraínu og vill því vel. Þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann: Það að hafa veitt þetta atvinnuleyfi, sú ákvörðun að virkja minni vernd heldur en flóttafólk frá Úkraínu á raunverulega rétt á — eins og hv. þingmaður kom inn á áðan þá eiga þau rétt á viðbótarvernd sem gefur þeim sömu réttindi og flóttafólk og þar með atvinnuréttindi — voru það ekki mistök, hv. þingmaður? Hefði ekki átt að gefa úkraínsku flóttafólki öll þau réttindi sem það átti rétt á, sem var sjálfkrafa atvinnuleyfi?