Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

atvinnuréttindi útlendinga.

28. mál
[12:33]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur andsvarið. Hún spyr hvort það hafi verið mistök að virkja þessa grein í lögunum þannig að þau fengju sjálfkrafa dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Ég held að það hafi ekki verið. En ef spurningin lýtur að því hvort réttindi þeirra hefðu átt að vera meiri og m.a. þau sem hér er lagt til, atvinnuréttindi, þá tek ég undir það og segi: Hæstv. ráðherra lagði það einmitt til í frumvarpi síðasta vor að það myndi gerast sjálfkrafa.

Ég tel að það fólk sem hingað hefur komið frá Úkraínu, og við vitum að fór í gegnum þetta ferli vegna þess að fjöldinn er svo mikill og vegna þess að Útlendingastofnun og innviðirnir okkar hafa ekki undan því að afgreiða hverja umsókn fyrir sig eins og gert er þegar hér er verið að óska eftir vernd eða veita viðbótarverndina, þá var þetta auðveldari leið vegna þess að vissulega viljum við bjóða þetta fólk hingað velkomið. Ég tel að það sé rétt að fólk úr þessum hópi sem vill fara út á vinnumarkaðinn eigi að eiga rétt á því og mér finnst við þurfa að breyta reglunum okkar og lögunum okkar þar að lútandi.