Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

atvinnuréttindi útlendinga.

28. mál
[12:34]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur fyrir að taka þátt í umræðunni og það verður áhugavert að fylgjast með skoðanaskiptunum hér. Ég stenst eiginlega ekki mátið vegna þess að ég var að nefna ákveðna atburðarás sem birtist okkur sem sitjum ekki þingflokksfundi stjórnarflokkanna sem svolítið sérkennileg, held ég að ég geti leyft mér að fullyrða. Nú er hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir bæði í þingflokki Sjálfstæðisflokksins en líka formaður þeirrar nefndar sem mun fá útlendingalögin til meðferðar fljótlega, hlýtur að vera. Þá er ég að vísa í atburðarásina. Málið er sem sagt afgreitt úr þingflokki VG og Framsóknar fyrir allnokkru en það er fast í þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins segir að það standi ekki hnífurinn á milli þingflokksins og dómsmálaráðherra en örstuttu síðar er gefið út að þingflokkurinn afgreiði frumvarp dómsmálaráðherra með fyrirvörum. Á sama tíma segir dómsmálaráðherra í viðtali að frumvarpið sé enn til meðferðar í ráðuneytinu. Þá langar mig svolítið að vita: Er það þannig að búið sé að afgreiða frumvarp úr þingflokki VG og Framsóknar sem er enn í vinnslu, þá mögulega í einhverri efnislegri vinnslu, í ráðuneytinu og er hægt með góðu móti að segja að það standi ekki hnífurinn á milli hæstv. dómsmálaráðherra og þingflokksins þegar mál dómsmálaráðherrans er samþykkt út úr þingflokknum með fyrirvörum? Ég þykist vita að hv. þingmaður vilji ekki fara djúpt í það hverjir þeir fyrirvarar eru en mig langar samt að spyrja: Snýr það eitthvað að því að ekki er gert ráð fyrir einhvers konar móttökubúðum eða brottvísunarbúðum í því frumvarpi sem VG og Framsókn hafa afgreitt úr sínum þingflokki?