Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

framtíð Íslands í svæðisbundinni, fjölþjóðlegri samvinnu.

130. mál
[13:30]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvar og spurningar. Það er nú einu sinni þannig að á undanförnum árum höfum við áttað okkur á því að það ríki sem sumir vilja telja og hefur óneitanlega verið forysturíki í hinum frjálsa vestræna heimi, eins og hann er oft kallaður, er nú kannski ekki alveg eins áreiðanlegt og við höfum sum viljað trúa. Nægir þar að benda á tíð síðasta forseta, á undan þeim sem nú situr. Ég sé að hv. þingmaður brosir. (TBE: Hann er ekki lengur forseti.) Ég veit að hann er ekki lengur forseti. En það sýnir okkur að afstaða Bandaríkjamanna er gríðarlega brothætt. Það munaði ekki miklu að það yrði stjórnarbylting í Bandaríkjunum ef hv. þingmaður getur rifjað það upp, óeirðir. Fráfarandi forseti þá vildi ekki fara frá völdum. Þetta veit auðvitað hv. þingmaður. Þetta hefur sýnt okkur og sannað að það er mjög varhugavert að treysta um of á eitt ríki sem vissulega er stórt og voldugt, en þegar til stykkisins kemur þá hugsar það auðvitað fyrst og fremst um sjálft sig og sína eigin hagsmuni. Það er að því núna. Það vill svo til að hagsmunir okkar fara vel saman um þessar mundir og það er bara hið besta mál. Mér hugnast betur fjölþjóðlegt samstarf sem er formbundið, þar sem ríkin sitja saman og taka ákvarðanir. Það er nú ástæðan fyrir því að ég tel að við eigum frekar að binda trúss okkar við Evrópu og Evrópusambandið heldur en að trúa því í blindni að Bandaríkjamenn séu ævarandi vinir og hugsi fyrst og fremst um aðra en sjálfa sig. (Forseti hringir.) Nefni ég t.d. þegar þeir ákváðu að draga her sinn héðan frá landi án nokkurs samráðs við okkur. Um hvaða hagsmuni hugsuðu þeir þá?