Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

flutningur Útlendingastofnunar til Reykjanesbæjar.

40. mál
[14:57]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ingu Björk Margrétar Bjarnadóttur sömuleiðis kærlega fyrir. Ég vil bara segja henni að ég gerði fullt af mistökum þegar ég byrjaði að fara fyrstu skrefin mín upp í púltið. Þú þarft nú alls ekki að skammast þín fyrir það þótt þér hafi orðið einhver fótaskortur á tungunni. Ég held að það sé bara manndómsmerki að bæði viðurkenna það og svo getur það hent okkur öll. Ég vil líka þakka þér kærlega fyrir umræðuna og þær fyrirspurnir sem þú komst með til mín og eins það sem þú lagðir hér inn í málið áðan. Ég held að það sé mikilvægt fyrir okkur öll að vanda okkur við þetta mál eins og öll önnur og að það séu bara fullt af tækifærum í þessu fyrir okkur, fyrir Suðurnes og svo er mikill lærdómur í því að fara í gegnum þetta mál og sjá hverju það getur skilað.

(Forseti (LínS): Forseti sér sig knúinn til þess að benda reyndum þingmönnum á að tala ekki til annarra þingmanna í fyrstu eða annarri persónu.)