Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

verkferlar um viðbrögð við ógnandi hegðun og ofbeldi meðal barna og ungmenna.

17. mál
[15:13]
Horfa

Flm. (Elsa Lára Arnardóttir) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvarið. Já, ég held að öll þau sem bera hagsmuni barna og ungmenna fyrir brjósti séu sammála því að við þurfum með einhverju móti að finna leiðir svo að við getum stigið inn í og það er löngu tímabært að stíga inn í. Maður veltir fyrir sér hvað gerðist, hvað kom fyrir. Hvernig lenti samfélagið á þessum stað? Ég vona að það verði leitað umsagna hjá þeim aðilum sem koma að einhverju leyti að vinnu með börnum og ungmennum og við fáum umsagnir frá þeim um hvernig hægt er að nálgast þetta verkefni, hvaða verkferlar gætu talist viðurkenndir og hvernig við innleiðum þá inn í mismunandi stofnanir og kerfi þar sem unnið er með börnum og ungmennum. Við hefjum samtalið hér innan Alþingis og finnum leið og síðan komumst við vonandi á þann stað að það verði innleiðing á einhverjum verkferlum og að hún heppnist vel.