Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

verkferlar um viðbrögð við ógnandi hegðun og ofbeldi meðal barna og ungmenna.

17. mál
[15:20]
Horfa

Flm. (Elsa Lára Arnardóttir) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvarið og segja að hv. þingmaður sem hér stendur og hv. þm. Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir, við erum algerlega sammála. Við þurfum að stíga líka varlega til jarðar og vanda okkur í því hvernig við búum til verkferla, hvernig við getum hjálpað líka þeim börnum sem beita ofbeldinu. Við þurfum að hjálpa þeim út úr því mynstri sem þau hafa lent í eða skapað sér. Við þurfum að hafa góðar áætlanir um hvaða verkferlar eru í kringum það að hjálpa þeim. Í því samhengi er mjög mikilvægt þegar við erum að vinna með börn og ungmenni að við skoðuðum m.a. hvernig við getum aukið forvarnafræðslu og verið með stöðuga endurmenntunarfræðslu hvað þetta varðar. Í þessu samhengi er mikilvægt líka að skoða áfallasögu nemenda þegar við erum að grípa inn í aðstæður af því að þegar barni líður illa er yfirleitt eitthvað sem orsakar þá líðan. Við getum ekki brugðist rétt við fyrr en við vitum nákvæmlega hvað það er sem veldur því að barnið bregst svona við.

Ég vil bara þakka hv. þingmanni fyrir brýninguna og mjög gott innlegg inn í umræðuna og óska þeim sem taka málið til umfjöllunar velfarnaðar. Ég hlakka til að fá að fylgjast með framvindu verkefnisins á hliðarlínunni þar sem ég er nú á síðasta degi sem varaþingmaður á Alþingi hér í dag.