Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

verkferlar um viðbrögð við ógnandi hegðun og ofbeldi meðal barna og ungmenna.

17. mál
[15:30]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Mig langar að þakka hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur fyrir þessa mikilvægu þingsályktunartillögu, fyrir ræðuna og þá umræðu sem hefur skapast. Ég tek undir það með hv. þingmönnum, sem hér hafa tekið til máls, að þetta er mikilvægt mál. Þetta er risastórt mál og það er þyngra en tárum taki að horfa á fréttir síðustu daga og sjá þau hryllilega sorglegu áhrif sem aukið ofbeldi og ógnandi hegðun hafa í samfélaginu okkar og það hjá börnum. Nýjasta dæmið var birt í fréttum í gær en við höfum því miður verið að sjá fleiri og fleiri fréttir af slíkri hegðun þar sem samfélagsmiðlar hafa komið við sögu, þar sem verið er að taka upp myndbönd af hrottalegum árásum. Við höfum séð ofboðslega mikla og sorglega afturför í virðingu fyrir hinsegin fólki og hreina fordóma sem hafa birst hjá ungu fólki. Ég held að við sem eldri erum höfum svolítið vaknað upp við vondan draum þar sem við héldum einhvern veginn að þetta væri bara búið og við værum komin á nýjan stað. En augljóslega er verkefnið enn fyrir framan okkur.

Ég ætla að taka undir það að þetta er mikilvæg ályktun og ég held að það sé mjög mikilvægt að hæstv. ráðherra vinni að viðbrögðum. Við sjáum að skólana vantar greinilega einhver tæki og tól til þess að geta tekist á við þessi vandamál og stutt er að minnast þess sem átti sér stað fyrir utan Menntaskólann í Hamrahlíð þar sem unga fólkið stóð upp og sagði: Hingað og ekki lengra. Það tengdist alvarlegu kynferðisofbeldi innan veggja skólanna og er alveg augljóst af öllu að þar þarf ráðuneytið að stíga inn og aðstoða skólastjórnendur og skólana í þessum málum.

Ég ætla líka að taka undir það, sem hefur komið fram, að þetta er samfélagslegt verkefni. Stóra málið er að við sem samfélag þurfum einhvern veginn að finna leiðir til að hlúa betur að börnunum okkar. Það er rétt að við þurfum að koma til móts við hvert og eitt barn en það þarf heilt þorp til að ala upp barn og við getum ekki varpað allri ábyrgðinni yfir á skólana. Skólarnir þurfa klárlega að fá aðstoð og stuðning. Þeir geta aldrei gert þetta einir og sér. Þá þarf foreldrasamfélagið, við sem samfélag, allt að taka þátt.

Ég segi bara: Til hamingju með þetta. Ég fagna þessu. Ég held að þetta sé mikilvægt mál. Tillagan sem við ræðum hér gerir ráð fyrir að við fáum aðgerðaáætlun eigi síðar en í maí á næsta ári. Ég verð bara að biðja hæstv. ráðherra að hreyfa sig enn hraðar. Ég held að það sé mjög mikilvægt að ráðuneytið komi inn. Ég veit að hæstv. ráðherra kom velsældarlögunum í gegnum þingið á síðasta kjörtímabili sem að mörgu leyti tóku einmitt undir að hægt væri að aðstoða og koma til móts við börn sem sýndu hættulega hegðun. En nú erum við að sjá þetta í svo miklu magni og við erum að sjá þetta í hóphegðun eða einhvers konar hjarðhegðun sem er svo ofboðslega sorglegt og eitthvað sem maður átti síður von á. Ég fagna umræðunni, ég hlakka til að taka málið fyrir og fá umsagnir um það í hæstv. allsherjar- og menntamálanefnd. Ég hvet hæstv. ráðherra til að leggja allt sitt af mörkum til að vinna með skólasamfélaginu öllu að því að veita skólunum einhverjar frekari bjargir til að takast á við þessi hryllilegu mál sem augljóslega eiga sér stað í íslenskum skólum, því miður.