Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

réttlát græn umskipti.

90. mál
[16:07]
Horfa

Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir (Sf):

Frú forseti. Í júní ítrekaði loftslagsráð áskorun sína til stjórnvalda í kjölfar viðvörunar frá IPCC um að framfylgja af mun meiri festu í þeim aðgerðum sem þegar hafa verið ákveðnar og um leið að hraða frekari stefnubreytingum og aðgerðum í loftslagsmálum. Loftslagsráð sagði í ályktun sinni að markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030 væru bæði óljós og ófullnægjandi. Það er fullljóst að til þess að ná markmiðum þarf að setja fram skýr tímasett og raunhæf markmið eigi dæmið einfaldlega að ganga upp. Réttlát, græn umskipti þar sem jöfnuður og samfélagsleg ábyrgð eru í forgrunni eru liður í því. Loftslagsráð sagði hreint út að framkvæmdir aðgerðaáætlunarinnar í loftslagsmálum væru ómarkvissar.

Frú forseti. Ég spyr hvort við ætlum að fljóta sofandi að feigðarósi. Ætlum við að sætta okkur við röskun á öllum þeim lífsgæðum og stöðugleika sem við búum við? Ætlum við að láta börnin okkar lifa í heimi sem vísindamenn um allan heim eru sammála um að sé ólífvænlegur og muni valda dauða og þjáningar milljarða manna? Hvaða skilaboð erum við að senda ungmennum sem hafa staðið hér við Alþingishúsið föstudag eftir föstudag í skólaverkföllum og hafa gríðarlegar áhyggjur af framtíð sinni og það réttilega? Eigi ekki allt að fara í skrúfuna þarf að hefjast handa strax. Þetta er áratugurinn sem öllu máli skiptir en samt er útblástur að aukast jafnt og þétt. Við þurfum að hefjast handa og ég tek undir með félögum mínum í Samfylkingunni, Jafnaðarmannaflokki Íslands, með loftslagsráði og ekki síst, frú forseti, með ungmennum sem taka þátt í loftslagsverkfallinu: Við skuldum þeim einfaldlega að tryggja þeim lífvænlega framtíð.