Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

lyfjalög.

353. mál
[17:07]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Frú forseti. Ég ætlaði nú ekkert að hafa mörg orð um þetta mál en kem hér upp til að lýsa yfir miklum stuðningi við það og fagna því sem hér er verið að leggja til og vil þakka hv. þm. Berglind Rós Guðmundsdóttur fyrir að flytja þetta mál og koma því hingað áleiðis inn í þingsalinn og vekja máls á þessu. Það gæti virst svona við fyrstu sýn að þetta sé ekkert sérstaklega veigamikið mál, hafi ekkert endilega áhrif á eitthvað rosalega marga, en rétt eins og hv. þingmaður sagði er þetta samkeppnismál, þetta er neytendamál, bætir aðgengi fólks að vöru sem það sannarlega þarf á að halda á einhverjum tilteknum tíma og þetta fellir niður ákveðnar girðingar og forræðishyggju sem við sjáum oft í íslenskri löggjöf, illu heilli. Það er yfirleitt hugsun sem er sett inn í lög með góðum fyrirheitum og góður ásetningur að baki. En ég vil nú meina að hugsunin á bak við þetta fyrirkomulag, sem er þá verið að afnema með þessari lagabreytingu sem hér er lögð til, sé skökk á alla kanta. Hv. þingmaður fór reyndar ágætlega yfir þetta og greinargerðin er sömuleiðis mjög vönduð og rökstyður vel af hverju við eigum að breyta þessu fyrirkomulagi. Þarna má t.d. má spyrja: Af hverju má verslun til að mynda selja stíflueyði, alls kyns ætandi efni, hvers kyns óhollustu; tóbak með skilyrðum og jafnvel hina stórhættulegu nikótínpúða, en ekki lausasölulyf að uppfylltum ákveðnum skilyrðum? Þetta er bara spurning um að treysta fólki sem rekur fyrirtæki og þetta er líka spurning um að treysta neytendum, að þeir kunni með hluti að fara. Mér finnst þetta vera gamaldags forræðishyggja og það er ekkert sem segir að verslunum sem eru fjær lyfjaverslunum eða apótekum sé betur treystandi en þeim sem eru nær lyfjaverslunum, að þær fari varlegar með íbúfen og frjókornaofnæmistöflur, svo dæmi sé tekið, og vitna ég nú aðeins í ræðu hv. þingmanns.

Svo er líka áhugavert að velta fyrir sér af hverju þessi fjarlægðarmörk eru 20 km. Það setjast einhverjir einstaklingar niður og ákveða hvernig er best að gera þetta: Er ekki bara fínt að hafa þetta 20 km? Af hverju ekki 15 km? Af hverju ekki 25 eða 40 eða jafnvel tíu? En þetta skiptir í raun og veru máli vegna þess að eins og kemur fram í greinargerðinni og kom fram í máli hv. þingmanns hér á undan mér er þarna um að ræða fjarlægðarmörk sem skilur á milli þess hversu góða samkeppnisstöðu fyrirtæki sem eru að keppa sín á milli búa í raun við. Fyrir utan nú bara það að markmið okkar með regluverki hér á Alþingi, ekki síst þegar kemur að svona málum, hlýtur að vera að auðvelda fólki að komast í þá vöru sem er um að ræða og búa þá til skilyrði þannig að þær séu t.d. ekki aðgengilegar börnum eða ekki sýnilegar í búðum eða hvernig við gerum það. Að setja þetta inn í einhverja kílómetra finnst mér ekki sniðugt. Þannig að út frá öllum eðlilegum samkeppnissjónarmiðum, og mér finnst þau skipta mjög miklu máli þó að við séum að tala um lausasölulyf, þá er verið að gera samkeppnisstöðu fyrirtækja skakka með svona reglum. Mér finnst þetta bara að vera óþarfi og það er betra fyrir fólk, auðveldara fyrir neytendur að hafa þetta með því fyrirkomulagi sem lagt er til í þessu máli og ég fagna því framlagningu þess.